Tveir árekstrar urðu á Suðurlandsvegi síðastliðinn laugardag, en sá seinni var aftanákeyrsla sem varð eftir að loka þurfti fyrir umferð á veginum sökum fyrri árekstursins.
Símon Geir Geirsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að ökumenn þurfi að sýna meiri aðgætni á veginum og tryggja að nægileg fjarlægð sé á milli bifreiða í umferðinni.
„Þetta kemur öðru hverju fyrir þarna á Suðurlandsveginum, en þessar aftanákeyrslur eru fyrst og fremst að gerast því það er alltof stutt bil á milli bíla,“ segir Símon Geir.
Fimm voru fluttir til aðhlynningar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og einn var með teljandi meiðsli. Sá lenti í seinni árekstrinum og hlaut rifbeinsbrot vegna bílbeltis.
Símon segir að umferðin sé mjög þétt á Suðurlandsveginum yfir sumartímann og það auki hættuna á árekstrum. „Það er alltaf mikil umferð á þessum tíma árs og þá sérstaklega um helgar, en þá verður bara að hafa varann á.“