Mistur hefur legið yfir norðaustan og suðaustan verðu landinu í dag. Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir nokkrar ástæður geta verið fyrir mistrinu.
mbl.is bárust ábendingar um mistrið í dag, sem sést allt frá norður ströndinni, suður í Mývatnssveit. Þegar blaðamaður hringdi í Veðurstofuna kvaðst Birta vera hissa og athugaði hvort farið væri að gjósa.
Eldgos reyndist ekki vera skýringin á mistrinu.
Segir Birta hæðahrygg sem liggur yfir landinu vera líklegustu skýringuna á hinu dularfulla mistri.
Hæðahryggurinn er það víðáttumikill að líklega kemur hann frá meginlandi Evrópu. Hugsanlega er mengun í mistrinu, en þó ekki svo mikið að það mælist í loftmælum að sögn Birtu.
„Ofan á það erum við með hitahvörf yfir landinu sem eru frekar lág og mynda í rauninni pottlok. Það er því lítil blöndun lofts og þar af leiðandi myndast mistur,“ segir Birta.
Mistrið sést vel frá Mývatnssveit til suðvesturs, þaðan sem mbl.is fékk sendar myndir.