Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota og stjórnarformaður í Bláa lóninu, segir að mikil vinna sé framundan sem snýr að skráningu Bláa lónsins á markað næsta haust. Ekki verði hægt að setja fram dagsetningu á útboði fyrr en í september í fyrsta lagi.
Þá segir Úlfar að sá fjöldi heilsulinda sem byggður hefur verið styrki ferðaþjónustuna og segir hann eftirspurn ferðamanna eftir því að komast í Bláa lónið mikla sem fyrr.
„Það er í fyrsta lagi í september sem menn geta sagt eitthvað til um dagsetningar útboðs. Það er stórmál að skrá félag á markað og að mörgu að hyggja,“ segir Úlfar.
Hann segir klárt að mikill áhugi sé fyrir útboði Bláa lónsins. „Það liggur alveg fyrir að það er mikill áhugi fyrir því. Málið núna snýr að forminu þannig að allt sé vel gert frá upphafi. Það er stóra málið í þessu. En eftirspurn eftir bréfum í Bláa lóninu verður ekki vandamál. Það er frekar framboðshliðin sem verður flókin,“ segir Úlfar.
Allmargar heilsulindir hafa risið hérlendis og flestar á undanförnum árum. Ber þar m.a. að nefna Sky lagoon í Kópavogi, Sjóböð í Hvammsvik og Skógarböðin á Akureyri, Vök á Egilsstöðum, Krauma í Borgarfirði, Giljaböð í Húsafelli, Fontana Spa á Laugarvatni, jarðböðin á Mývatni og Sjóböðin á Húsavík og fleiri.
Úlfar segir að þetta hafi ekki haft nein áhrif á eftirspurn. Þvert á móti styrkist ferðaþjónustan með fleiri heilsutengdum vörum.
„Í raun held ég að þetta styrki stóru myndina. Sá hluti sem snýr að heilsuferðaþjónustu er sá hluti ferðaþjónustu sem er að vaxa mest í heiminum. Ef að Ísland ætlar að markaðssetja sig sem heilsu- og vellíðunarlandið, þá er eins gott að við getum tekið á móti öllum þeim sem hingað koma. Við höfum líka lagt upp úr því að þetta snúist ekki um fjöldann, heldur vandaða vöru og þjónustu þannig að fólk sé tilbúið að greiða fyrir hana. Bláa lónið hefur a.m.k. staðið fyrir það," segir Úlfar.