Alþingi hefur samþykkt frumvarp Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra um breytingu á lögum um tæknifrjóvgun. Með breytingunni verður virtur vilji einstaklinga eða pars, sem hefur geymt kynfrumur eða fósturvísa í tæknifrjóvgunarferli, til að nýta þau þótt áður hafi komið til sambúðarslita eða annar einstaklingurinn látist.
Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að afnumið verði ákvæði gildandi laga um að kynfrumum eða fósturvísum skuli skilyrðislaust eytt við þessar aðstæður.
Þá segir að með lagabreytingunni sé ekki verið að heimila að pör geti gefið þriðja aðila fósturvísa. Ákvæði laganna gilda einungis um pör sem hafa staðið saman að tæknifrjóvgunarferli.
Réttur einstaklings til að heimila notkun kynfrumna eftir andlát, skilnað eða sambúðarslit verður bundinn við að viðkomandi hafi verið í sambúð við þann sem mun ganga með barnið. Vilji beggja aðila þessa efnis þarf að vera skýr og fyrirliggjandi. Sama máli gegnir um notkun fósturvísis.
„Undirbúningur að lagabreytingunni fór fram í góðri samvinnu við dómsmálaráðuneytið, enda kallaði það á vandlega skoðun á barnalögum svo skýrt liggi fyrir hverjir teljast foreldrar barns sem verður til við þær aðstæður sem frumvarpið heimilar,“ segir í tilkynningunni.
Gildandi reglur um foreldrastöðu eftir tæknifrjóvgun verða óbreyttar. Í þeim felst m.a. að par sem þegið hefur gjafakynfrumur verða foreldrar barns þegar það fæðist. Á sama hátt eru þau sem sameiginlega tóku ákvörðun um að geyma kynfrumur eða fósturvísi sem eru foreldrar barns sem verður til við þær aðstæður sem lagabreytingin lýtur að.