Óveður, sjórok og kuldi sem gekk yfir landið á vormánuðum hefur að mati Steins Kárasonar, garðyrkjumeistara og umhverfishagfræðings, keðjuverkandi langtímaáhrif á gróður. Segir hann megnið af gróðrinum koma til með að jafna sig á næstu tveimur til fjórum árum en sumt skaddast verulega og drepst að sögn Steins.
Líkt og fjallað var um í Morgunblaðinu í síðustu viku kann mörgum að þykja undarlegt að lauf séu fallin af trjám víðs vegar um landið. Tré, runnar og annar gróður hefur misst lauf og látið verulega á sjá.
Steinn segir gróður þola mikil áföll og hann sé ótrúlega fljótur að jafna sig. Því sé engin ástæða fyrir gróðurunnendur að örvænta. Þrátt fyrir það gæti niðursveiflan í gróðrinum hugsanlega staðið yfir í tvö til fjögur ár.
Ástæðan er að sögn Steins óveður, sjórok og kuldi sem gekk yfir á vormánuðum. Veðrið hefur þó mismunandi áhrif á ólíkar tegundir gróðurs. Til að mynda hafi birki víða um land verið að búa sig undir blómgun og frjóvgun á þessum tíma en afleiðingar veðursins á það ferli eru nokkrar að sögn Steinars.
Til að mynda hafi brumin verið nýútsprungin, nýgræðingurinn var viðkvæmur og ung blöð sviðnuðu og drápust. Þá hafði verðið mikil áhrif á reklana en karl- og kvenreklar birkitrjáa, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, drápust í stórum stíl að sögn Steins. Kvenreklarnir virðast þó sumir hafa staðið veðrið betur af sér en karlreklarnir hrundu sum staðar af trjánum og liggja dauðir á jörðinni.
Afleiðingarnar eru þær að birkifrjó er eða verður í sumar í lágmarki og uppskera af birkifræi í haust verður líklega mjög lítil. Birkitré undirbúa blómmyndun undir lok sumars eða á haustin. Blómin verða þannig tilbúin á greinunum ári áður en þau blómstra en seinkun dregur verulega úr möguleikum blómanna fyrir næsta ár. Því má búast við að afleiðingarnar komi betur í ljós á næsta ári.
Spurður hvaða afleiðingar það gæti haft ef veðurfar yrði einnig óhagstætt næsta vor svaraði Steinar því til að veðrið gæti haft langtímakeðjuverkandi áhrif næstu tvö til þrjú árin. Þrátt fyrir það gæti gróðurinn jafnað sig alveg á næsta ári ef næsta sumar verður gott.
Ljóst er að birkið kom ekki eitt illa undan vetrinum. Steinar segir alaskaaspirnar einnig hafa orðið fyrir áfalli. Þar sem svo er verði blómgun og frjóvgun minni og lakari en ella og aspirnar koma því að öllum líkindum til með að vaxa minna þetta árið en á meðalári. Furan virðist þó hafa sloppið betur en önnur tré og líklegt að hún nái nokkuð að halda sínu striki að sögn Steinars.
Allt hefur þetta áhrif á mótstöðu trjánna fyrir sjúkdómum. Steinn segir það þó ekki endilega koma að sök þar sem einnig urðu áföll í skordýrafánunni. Trjámaðkurinn hefur til að mynda drepist að einhverju leyti á laufinu að sögn Steins.
Steinn tekur undir orð Hreins Óskarssonar, sviðsstjóra þjóðskóga hjá Skógræktinni, sem sagði enga ástæðu til þess að höggva trén strax, heldur fylgjast með þeim fram eftir sumri. Að sögn Steins er það vegna þess að við sjáum ekki fyrr en líður á sumrið hvað hefur lifað af.
Þangað til hvetur hann fólk til þess að hlúa vel að gróðrinum. Til dæmis með að vökva ef miklir þurrkar verða, auk þess að gefa áburð til þess að reyna að hjálpa gróðrinum.