Miðlæg rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur enn til rannsóknar meint kynferðisbrot lögmanns.
8. maí greindu fjölmiðlar frá því að lögmaðurinn hefði verið kærður fyrir að hafa brotið kynferðislega á og nauðgað eiginkonu skjólstæðings síns. Lögmaðurinn er með málflutningsréttindi fyrir Landsrétti og er sagður hafa brotið gegn konunni á meðan eiginmaður hennar var í einangrun á Hólmsheiði.
Er mbl.is ræddi við Grím Grímsson yfirlögregluþjón staðfesti hann að rannsókn væri enn í gangi, en vildi ekki staðfesta að um lögmann væri að ræða. Þá gat hann ekki tjáð sig frekar um málið.