Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra gat að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun lítið gefið upp um hvort ráðherraskipti eigi sér stað á ríkisráðsfundi sem er fyrirhugaður 19. júní. Í samtali við mbl.is sagði hann það eiga eftir að koma í ljós.
Aðspurð sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að ríkisráðsfundur hefði verið boðaður þann 19. júní, á kvenréttindadaginn, en að hún teldi best að formaður Sjálfstæðisflokksins færi yfir sínar fyrirætlanir varðandi ráðherraskiptin.
Jón kvaðst heldur ekki geta svarað því hvort til stæði að Guðrún Hafsteinsdóttir, fyrsti þingmaður Suðurlands, yrði skipuð í embætti dómsmálaráðherra á fundinum.
Fyrir lá að Guðrún ætti að taka við embættinu þegar kjörtímabil sitjandi ríkistjórnar væri hálfnað, eða um 18 mánuðum eftir að ríkisstjórn var mynduð. Sá dagur er kominn og liðinn, en Guðrún hefði samkvæmt því samkomulagi átt að taka við í mars síðastliðnum.
Sjálfstæðismenn í Fjarðabyggð og fulltrúaráð Sjálfstæðismanna í Grindavík sendu formanni flokksins, Bjarna Benediktssyni, nýverið áskoranir um að halda Jóni sem ráðherra í ríkisstjórn, án þess þó að fara fram á að hann skipaði áfram sama embætti. Þess má geta að Grindavík er í Suðurkjördæmi, kjördæmi Guðrúnar.
Spurður hvort hann myndi taka slíkri áskorun ef formaðurinn yrði við henni sagði Jón: „Þeir sem eru í pólitík eru þar og við erum á fullri ferð í okkar vinnu, þannig því er auðvitað auðsvarað.“
Hann kvaðst ekki vita hvort til greina kæmi að breyta mannskap á milli ráðuneyta eða skapa ný ráðuneyti, heldur kæmi það í ljós síðar.
„Þetta verður bara að koma í ljós hvernig verður skipað á ráðherrabekkinn af hálfu flokksins og það skýrist væntanlega eftir helgina. Breytingar eru boðaðar og við sjáum bara hvernig úr vinnst,“ sagði Jón.
Hann kvaðst þakklátur fyrir þann mikla stuðning sem hann finni innan flokksins, ekki bara frá félögum Grindavíkur og Fjarðabyggðar, heldur almennt.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gaf ekki færi á viðtali að ríkisstjórnarfundi loknum.