Ráðist á 17 ára pilt með barefli

Lögreglan hefur handtekið fjóra menn á aldrinum 17 til 20 …
Lögreglan hefur handtekið fjóra menn á aldrinum 17 til 20 ára. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ráðist var á 17 ára pilt með barefli við Mjóddina í Reykjavík í gær. Lögreglan hefur handtekið fjóra menn á aldrinum 17 til 20 ára sem eru grunaðir um árásina.

Þetta staðfestir Heimir Ríkharðsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is. Rúv greindi fyrst frá.

Pilturinn var fluttur á slysadeild með áverka, en er kominn heim, að sögn Heimis. Spurður hvers konar barefli mennirnir notuðu segist Heimir ekki geta svarað því að svo stöddu vegna rannsóknarhagsmuna.

Þá lagði lögregla hald á fíkniefni í bíl mannanna.

Málið er í rannsókn þar sem meðal annars er skoðað hvort einhverjar tengingar séu á milli piltsins og árásarmannanna. Ekki liggur fyrir hvort um tilefnislausa árás hafi verið að ræða.

Heimir staðfestir jafnframt að kært verði fyrir líkamsárás, vopnalagabrot og vörslu fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert