Samningur vegna bílakjallara Nýs Landspítala

Hjördís Ýrr Skúladóttir, formaður MS félags Íslands , Willum Þór …
Hjördís Ýrr Skúladóttir, formaður MS félags Íslands , Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, Þorvaldur Gissurarson forstjóri ÞG verk ehf og Sigríður Jóhannsdóttir, formaður Samtaka sykursjúkra á Íslandi. Ljósmynd/NLSH

Í dag undirrituðu Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG verks, samning Nýs Landspítala ohf. um uppsteypu á bílakjallara undir Sóleyjartorgi við hliðina á meðferðarkjarnanum. 

Verkið er liður í uppbyggingu Nýs Landspítala við Hringbraut.

Auk þess vottuðu samninginn þær Hjördís Ýrr Skúladóttir, formaður MS félags Íslands og Sigríður Jóhannsdóttir, formaður Samtaka sykursjúkra á Íslandi (Diabetes Ísland). 

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra við uppbyggingu bílakjallarans.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra við uppbyggingu bílakjallarans. Ljósmynd/NLSH

„Það er ánægjulegt að ennþá bætist við byggingar sem eru á framkvæmdastigi í uppbyggingu við nýjan Landspítala. Þessi viðbót verður mikilvæg í heildarsamhengi því það skiptir öllu að öll þjónusta við sjúklinga og gesti sé á heimsmælikvarða og með góðri aðkomu þá er hægt að tryggja betur góða umgjörð,“ segir heilbrigðisráðherra í tilkynningu. 

Tveggja hæða bílakjallari

Bílakjallarinn verður á tveimur hæðum undir Sóleyjartorgi ásamt tengigöngum sunnan Landspítala.

Kjallarinn verður staðsettur milli meðferðarkjarna og fyrirhugaðrar byggingar dag-, göngu- og legudeildar Landspítalans austan við torgið, sem er sunnanmegin við Gamla Landspítalann. Verða þar um 180 bílastæði fyrir þá sem sækja þjónustu eða að koma í heimsóknir.

Þorvaldur segir að lokið verði við verkið á næsta ári eins og áætlanir segja til um, „Við hjá ÞG verk erum sátt við að geta tekist á við samninginn og verkefni sem þetta. Við munum einhenda okkur í verkið og allt okkar starfsfólk á staðnum mun verða einhuga í að uppsteypan gangi vel."

Heildarflatarmál byggingana er áætlað 7.500 mog upphæð samningsins er u.þ.b. 1,38 milljarðar, sem er 91,4% af kostnaðaráætlun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert