Alls voru 226.670 skráðir í þjóðkirkjuna þann 1. júní, eða 57,7% landsmanna. Skráðum einstaklingum í þjóðkirkjuna hefur fækkað um 799 síðan 1. desember í fyrra.
Kaþólska kirkjan er næstfjölmennasta trú- og lífsskoðunarfélag landsins, með 14.985 skráða. Fríkirkjan í Reykjavík fylgir þar á eftir með 9.927 skráða.
Alls voru 30.283 einstaklingar skráðir utan trú- og lífsskoðunarfélaga, eða 7,7% landsmanna. Ef einstaklingur er utan trú- eða lífsskoðunarfélags þá hefur hann tekið afstöðu til þeirrar skráningar sinnar.
Tölurnar eru byggðar á tölum Þjóðskrár yfir fjölda einstaklinga sem skráðir eru með búsetu hér á landi.
Frá 1. desember 2022 til 1. júní 2023 hefur mesta fjölgun skráðra einstaklinga í trú- og lífsskoðunarfélagi verið í Siðmennt, eða um 2.358, sem er fjölgun um 4,4%.
Þá hefur fjölgun verið næstmest í kaþólsku kirkjunni og Ásatrúarfélaginu þar sem skráðum einstaklingum fjölgaði um 136. Mesta hlutfallslega fjölgun var hjá lífsskoðunarfélaginu Lífsspekifélagi Íslands, eða um 65,5%, en nú eru 48 skráðir í félagið.
Alls voru 77.535 einstaklingar skráðir með ótilgreinda skráningu. Ef einstaklingur er með ótilgreinda skráningu þá hefur hann ekki tekið afstöðu til skráningar í trú- eða lífsskoðunarfélag.