Karlmaður hefur verið dæmdur í fimm mánaða fangelsi fyrir fjársvik, umferðarlagabrot og hótanir, meðal annars með því að hafa stolið bensínlykli og notað hann án heimildar.
Maðurinn var sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir fjársvik með því að hafa á tímabilinu 17. desember til 20. desember 2020 stolið bensínlykli, notað hann í blekkingarskyni og án heimildar til að greiða fyrir eldsneyti í sex tilvikum. Nemur heildarfjárhæðin 41.725 krónum.
Hann var einnig sakfelldur fyrir hótanir, en honum var gefið að sök að hafa hótað konu og unnusta hennar ofbeldi í smáskilaboðum.
Þá var hann sakfelldur fyrir að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti 17. og 19. desember 2020.
Maðurinn játaði skýlaust þá háttsemi sem honum var gefin að sök og var það metið honum til refsimildunar.
Var hann sem fyrr segir dæmdur í fimm mánaða fangelsi og til að greiða konunni 150.000 krónur í miskabætur. Ekki þóttu forsendur til að skilorðsbinda refsinguna að mati héraðsdóms.