„Þær hverfa“

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra í blíðunni fyrir utan Hótel Nordica …
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra í blíðunni fyrir utan Hótel Nordica í dag. mbl.is/Hákon Pálsson

„Þær hverfa. Þessar 29 sem eru í dag á hringveginum verða allar horfnar á þessu tímabili ef áætlunin gengur eftir.

Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra um einbreiðar brýr á hringveginum í samtali við mbl.is í dag.

Í samgönguáætlun sem ráðherra kynnti á Hótel Nordica í dag fyrir tímabilið 2024-2038 er stefnt að fækkun einbreiðra brúa um land allt. Engin einbreið brú verður á hringveginum í lok 15 ára tímabils áætlunarinnar og þar að auki mun öðrum einbreiðum brúm fækka um 50 talsins. Þannig mun einbreiðum brúm á landinu öllu fækka um 79 talsins á tímabili samgönguáætlunarinnar.

Hvaða einbreiðu brýr utan hringvegarins verða teknar úr notkun?

„Það eru þá aðrir stofnvegir eða tengivegir eða jafnvel brýr sem komnar eru vel til ára sinna og verða gerðar tvíbreiðar í leiðinni, stundum með röri og stundum með nýjum brúm. Þessu verður forgangsraðað með svo kallaðri svartblettarannsókn þar sem farið er eftir slysatíðni og umferðarþunga,“ segir Sigurður Ingi.

Fækka á malarvegum

619 kílómetrar vega sem eru í dag með malarslitlagi verða á samgönguáætlun bundnir slitlagi. Alls eru um 2.118 kílómetra tengivega á Íslandi með malarslitlagi. Sigurður Ingi segir langt í það að hægt verði að klára að binda alla vegi slitlagi.

„Þarna er forgangsröðunin skólasókn og vinnusóknarsvæði. Það er að segja þar sem skólabíllinn er að aka með börn og þar sem vegurinn er orðinn þannig að atvinnurekstur getur ekki þrifist við hann vegna þess að það þarf að byggja hann upp og setja á hann slitlag.

Eins einhverjar ferðamannaleiðir og vegir þar sem er meiri umferð og þar sem erfiðara er að viðhalda vegunum.“

Ráðherra segir af nægu að taka en að það sé langt í að hægt verði að leggja slitlag á alla vegi á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert