Tvenn ef ekki þrenn jarðgöng á hverjum tíma

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra á blaðamannafundi á Hótel Nordica í …
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra á blaðamannafundi á Hótel Nordica í dag. Þar kynnti hann samgönguáætlun fyrir tímabilið 2024-2038. mbl.is/Hákon Pálsson

„Þetta er 30 ára sýn og við erum að leggja upp með að það fari fram­kvæmda­fé upp á 12-15 millj­arða ár­lega í þetta sem þýðir að það verði tvenn ef ekki þrenn jarðgöng í gangi á hverj­um tíma,“ seg­ir Sig­urður Ingi Jó­hanns­son innviðaráðherra í sam­tali við mbl.is.

Í sam­göngu­áætlun sem kynnt var í dag er lögð fram 30 ára áætl­un með for­gangs­röðun í jarðganga­gerð. Jarðgöng eru sögð lyk­ilþátt­ur í að treysta bú­setu­skil­yrði um land allt og veita um­ferð fram hjá hættu­leg­um og óáreiðan­leg­um fjall­veg­um. Stefnt er að því í áætl­un­inni að all­ir jarðgangna­kost­ir komi til fram­kvæmda á næstu 30 árum.

Sig­urður Ingi seg­ir gott að senda þau skila­boð í sam­göngu­áætlun, til sam­fé­laga sem fá betri lífs­skil­yrði og meira ör­yggi í sam­göng­um og teng­ing­um, að þeirra teng­ing sé á dag­skrá.

Þarf ekki mik­inn fyr­ir­vara

Fjarðar­heiðargöng eru í efsta for­gangi á sam­göngu­áætlun eft­ir sem áður en rætt hef­ur verið um Fjarðarleið sem val­kost við Fjarðar­heiðargöng. Sig­urður Ingi seg­ir Fjarðar­heiðina í raun vera eina val­kost­inn sem hægt sé að fara af stað með án mik­ils fyr­ir­vara.

„Öll önn­ur jarðgöng þurfa annað hvort frek­ari rann­sókn­ir og öll þurfa þau um­hverf­is­mat. Það eru þá að lág­marki tvö til tvö og hálft ár jafn­vel þrjú ár í að ein­hver önn­ur göng gætu farið af stað,“ seg­ir Sig­urður Ingi og bæt­ir því við að umræðan um for­gangs­röðun­ina muni verða tek­in í þing­inu og að þingið taki að lok­um ákvörðun.

Ráðherra seg­ir nokkr­ar sam­göngu­áætlan­ir muni líta dags­ins ljós og að það geti orðið breyt­ing­ar í sam­fé­lag­inu sem kalla á aðra for­gangs­röðun í jarðgangna­gerð. „Miðað við nú­ver­andi for­send­ur verður lagt upp með þessa for­gangs­röðun,“ seg­ir hann.

Þegar menn segj­ast ætla að gera eitt­hvað þá er það gert

Hval­fjarðargöng 2 eru of­ar­lega á for­gangslist­an­um en þau verða sam­starfs­verk­efni rík­is og einkaaðila líkt og fyrri Hval­fjarðargöng. Sig­urður Ingi seg­ir aðspurður að þrátt fyr­ir að nú stytt­ist í önn­ur Hval­fjarðargöng hafi verið mik­il­vægt að standa við gef­in lof­orð annarra stjórn­mála­manna um að gera göng­in gjald­frjáls fyr­ir tæp­um fimm árum síðan.

„Þegar menn segj­ast ætla að gera eitt­hvað þá er það gert. Mér finnst það mik­il­vægt. Jafn­vel þó síðan sé tek­in ákvörðun ein­hverj­um árum síðar og gjald­taka haf­in að nýju þá finnst mér maður standa bet­ur við orðin því það er gert á öðrum grund­velli.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert