Verðmætið eykst um milljarðatugi

Gert er ráð fyrir mikilli eftirspurn eftir lóðunum.
Gert er ráð fyrir mikilli eftirspurn eftir lóðunum. mbl.is/Árni Sæberg

Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna, segir verðmæti Keldnalands verða endurmetið til hækkunar. Það var metið á 15 milljarða árið 2019 en margt bendir til að það hafi að minnsta kosti tvöfaldast.

„Það er verið að uppfæra Samgöngusáttmálann en sala lóða í Keldnalandi er hluti af fjármögnun hans. Við munum leggja fram nýtt verðmat á landinu, rétt eins og við erum að uppfæra allar tölur sáttmálans. Það er mikil verðbólga, sérstaklega í verklegum framkvæmdum, þannig að þær tölur eru að hækka.

Það hefur líka komið fram að fjárfestingar sáttmálans hafi verið van­áætlaðar. Það blasir því við, og hefur komið fram, að þær tölur fara hækkandi. Þannig að á sama tíma verðum við að leggja mat á tekjuhliðina í sáttmálanum og endurmeta hvað er raunhæft. Ég geri því ráð fyrir að það verði settur nýr verðmiði á landið í sumar,“ segir Davíð um verðmatið.

Fjallað er um hugsanlegt verðmæti byggingarlóða í Keldnalandi í Morgunblaðinu í dag. Þar segir að gera megi ráð fyrir að minnsta kosti 2.600 íbúðum á almennan markað. Ef þær eru 100 fermetrar og lóðaverðið 100-130 þúsund á fermetra gæti sala lóðanna skilað 26-34 milljörðum króna.

Milljarðar í atvinnulóðir

Þá er gert ráð fyrir atvinnuhúsnæði fyrir 5.000 starfsmenn. Miðað við að 20 fermetrar verði byggðir á hvern starfsmann, og fermetraverðið sé 50-60 þúsund, gæti sala þeirra lóða skilað 5-6 milljörðum. Við það bætast gatnagerðargjöld.

Samanlagt gæti lóðasalan því skilað allt að 40 milljörðum. Endanlegt skipulag liggur ekki fyrir og gæti sú upphæð hækkað ef til dæmis íbúðum verður fjölgað.

Tekjunum á að ráðstafa í þágu samgangna, þar með talið borgarlínu.

Nán­ari um­fjöll­un er að finna í Morg­un­blaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert