Vilja að heilsuhraustir geti haldið áfram störfum

Hjúkrunarfræðingar eru meðal þeirra sem mega starfa til 75 ára …
Hjúkrunarfræðingar eru meðal þeirra sem mega starfa til 75 ára aldurs. mbl.is/Árni Sæberg

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segir tækifæri felast í frumvarpi heilbrigðisráðherra sem veitir hjúkrunarfræðingum og öðru klínísku heilbrigðisstarfsfólki heimild til að vinna til 75 ára aldurs.

Hún segir þó ósvarað hvaða kjör hjúkrunarfræðingarnir muni fá auk þess sem fáir hjúkrunarfræðingar séu enn í starfi við 69 ára aldur. Það gefi til kynna að breytingin muni hafa minni áhrif á mönnunarvanda en ætla mætti. Sumir séu í yfirmannsstöðum eða með 40 ára starfsreynslu.

„Er verið að bjóða lægri laun en þú varst á þegar þú hættir? Því er ósvarað. Svo erum við ekki að fara að setja þessa einstaklinga í framlínuna á bráðamóttöku eða á gjörgæslu. Það þarf líka að athuga hvaða starfsumhverfi er hægt að bjóða þessum hópi,“ segir Guðbjörg.

33 hjúkrunarfræðingar 69 ára

Samkvæmt gögnum frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga eru 33 hjúkrunarfræðingar 69 ára eins og sakir standa og eru það um 40% hjúkrunarfræðinga á þessum aldri sem hafa starfsleyfi.

Hjúkrunarfræðingum er heimilt að taka lífeyri um sextugt. Til samanburðar eru 76 hjúkrunarfræðingar sem standa á sextugu og eru það 92% hjúkrunarfræðinga með starfsleyfi.

Sé tekið mið af þessum tölum hætta ríflega 50% hjúkrunarfræðinga sem eru með starfsleyfi á árunum 60-69 ára.

Guðbjörg Pálsdóttir er formaður Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Guðbjörg Pálsdóttir er formaður Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga. mbl.is

Bætir ekki mönnunarvanda

„Við erum sátt við þetta því við viljum að þeir sem hafa andlega og líkamlega heilsu haldi áfram,“ segir Guðbjörg.

„Ég vil hins vegar að benda á það að þetta mun ekki bæta mönnunarvanda hjúkrunarfræðinga,“ segir Guðbjörg.

Í því samhengi nefnir hún tölurnar í meðfylgjandi töflu. Þegar hafi meirihluti 69 ára hjúkrunarfræðinga hætt í starfi og farið á lífeyri þegar kemur að þessum tímamótum.

Árétting: Guðbjörg hafði samband við mbl.is og vildi koma því á framfæri að félag hjúkrunarfræðinga telji jákvætt að hjúkrunarfræðingar hafi tækifæri til að vinna eftir 70 ára aldur. Hins vegar sé ekki afstaða félagsins að hjúkrunarfræðingar eigi að halda á áfram að vinna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert