Á síður von á íbúðabyggð við Langasand

Í skipulagslýsingu, sem samþykkt var af bæjarstjórn Akraness í gær, …
Í skipulagslýsingu, sem samþykkt var af bæjarstjórn Akraness í gær, eru áform um að reist verði hótel á Langasandi. mbl.is/þök

Bæjarstjórn Akraness áformar að endurskoða skipulag Jaðarsbakka. Á prjónunum er að reist verði hótel á Langasandi. Haraldur Benediktsson, bæjarstjóri Akraneskaupstaðar, segir fulla ástæðu til þess að eiga gott samstarf og fylgjast að.

Bæjarstjórn Akraness samþykkti á fundi sínum í gær skipulagslýsingu þar sem gert er ráð fyrir því að skipulag Jaðarsbakka verði endurskoðað með það að augnamiði að byggja upp miðstöð lýðheilsu. Lögð verður áhersla á íþróttir og náttúru á svæðinu með skýrri tengingu við sjóinn og Langasand. 

Í skipulagslýsingunni kemur fram að miðstöð lýðheilsu geti falið í sér byggingu hótels, baðlóns og íþróttaaðstöðu auk þess sem möguleikinn á að þétta byggð verður skoðaður. 

Vinnan á frumstigi 

Haraldur sagði í samtali við mbl.is að vinnan sé á algjöru frumstigi. „Skipulagslýsingin er bara til þess að leggja línur fyrir hönnuði sem koma til með að leggja fram hugmyndir um það hvernig hægt er að nýta svæðið,“ að sögn Haraldar. 

Haraldur segir að ekki standi til að loka aðgengi fólks að strandlengjunni á nokkurn hátt, fyrst og fremst sé verið að kanna hvernig hótel myndi rúmast á svæðinu. Gefur Haraldur lítið fyrir að á svæðinu verði íbúabyggð þrátt fyrir að bæjarstjórn hafi sett skipulagslýsinguna fram með þeim hætti. Sagðist Haraldur síður eiga von á því að það verði að veruleika, allavega á þessu stigi.

„Við ætlum að halda áfram að nota Jaðarsbakkana sem okkar helsta íþróttasvæði,“ sagði Haraldur. Verið er að byggja nýtt íþróttahús á svæðinu og ljóst að fara þarf í fleiri stórar framkvæmdir. Nefndi Haraldur í því samhengi að mikill áhugi væri á nýrri og stærri sundlaugum auk þess sem endurnýja þurfi fótboltavöllinn á svæðinu og endurbæta aðstöðu fyrir áhorfendur. 

Skipulagslýsingin er framhald af viljayfirlýsingu um uppbyggingu við Langasand sem undirrituð var í mars af Akraneskaupstað, Ísold fasteignafélagi, Íþróttabandalagi Akraness (ÍA) og Knattspyrnufélagi Akraness. Haraldur segir skipulagslýsinguna í samræmi við viljayfirlýsinguna og samstarf milli Akraneskaupstaðar og félaganna gott. Vonast hann til þess að svo verði áfram, enda að hans mati full ástæða til þess að eiga gott samstarf og fylgjast að.

Kemur til greina að byggja fleiri hótel

Haraldur segir Akranes eiga mikið inni, ekki síst í ferðaþjónustunni. Því komi vel til greina að vera með tvö eða fleiri hótel í bænum.

Nú þegar eru tvö svæði sem koma til greina. Annað er á Breiðinni, sem er þróunarreitur sem fór í gegnum hönnunarsamkeppni. Kveðst Haraldur spenntur fyrir því að reist verði hótel á svæðinu af mismunandi gerðum fyrir ólíka markhópa enda útiloki annað ekki hitt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert