Arnar Jónsson hlýtur heiðursverðlaun Grímunnar

Arnar Jónsson leikari hlaut heiðursverðlaun Grímunnar 2023.
Arnar Jónsson leikari hlaut heiðursverðlaun Grímunnar 2023. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„​Þessi viðurkenning segir manni að maður hafi gert eitthvað rétt í lífinu. Þetta þýðir að manni hefur tekist ætlunarverk sitt að einhverju leyti,“ segir leikarinn Arnar Jónsson sem hlaut rétt í þessu heiðursverðlaun Grímunnar 2023, í samtali við Morgunblaðið.

Hlaut hann viðurkenninguna „fyrir framúrskarandi og ómetanleg störf í þágu íslenskrar leiklistar“.

Leikarinn var kynntur á svið meðal annars með orðunum: „Frá unga aldri hefur hann helgað líf sitt leiklistargyðjunni, en hann hefur túlkað fleiri persónur en nokkur annar íslenskur leikari. […] Hann hefur hlotið nokkrar tilnefningar til Grímunnar og hreppti verðlaunin fyrir túlkun sína á Lé konungi. Hann hlaut Stefaníustjakann fyrir störf sín við leiklist árið 1971.“

Eiginkona Arnars, Þórhildur Þorleifsdóttir leikstjóri, hlaut einnig heiðursverðlaun Grímunnar árið 2019 og segir hann vissulega skemmtilegt að þau hjónin hafi nú bæði hlotið verðlaunin. 

„Það er auðvitað mjög skemmtilegt og vonandi erum við bæði bara sæmilega vel að því komin. Við höfum stutt hvort annað í gegnum tíðina, eiginlega frá ­byrjun,“ segir Arnar.

Viðtal við Arnar Jónsson má finna á menningarsíðum Morgunblaðsins á morgun, fimmtudaginn 15. júní. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert