Þremur ferðamönnum var bjargað úr sjálfheldu á Hlíðarfjalli í Mývatnssveit í gærkvöldi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörg.
Björgunarsveitinni Stefáni barst beiðni um að aðstoða þrjá ferðamenn í gærkvöldi. Ferðamennirnir þrír höfðu verið við göngu á hefðbundinni gönguleið á fjallinu en fóru út af leiðinni og gengu undir klettabelti sem þeir höfðu talið vera færa leið.
Fljótlega áttuðu ferðamennirnir sig á því að lengra kæmust þeir ekki. Tveir í hópnum treystu sér ekki til að halda áfram og var þá kallað eftir aðstoð björgunarsveitar.
Að því sem fram kemur í tilkynningunni gengu björgunaraðgerðir vel og var hópur frá björgunarsveitinni Stefáni fljótlega kominn til ferðamannanna.
„Nokkurn tíma tók þó að tryggja niðurgöngu þeirra svo vel væri, en þarna er fjallið laust í sér og töluverð hætta af og á grjóthruni,“ segir í tilkynningunni.
Ferðamennirnir fengu þá föt að láni frá björgunarsveitarmeðlinunum enda farið að kólna töluvert. Allir voru komnir niður úr fjallshlíðinni fyrir miðnætti.
Í gærkvöldi hafði einnig annar hópur fólks fest bíl sinn í Þverá í Fljótshlíð og kallaði hópurinn eftir aðstoð björgunarsveita. Björgunarfólk frá Hvolsvelli fór á vettvang en vatn var farið að flæða inn í bílinn, og börn voru í honum. Að því er fram kemur í tilkynningu gekk vel að koma bæði fólki og bíl á þurrt land.