Ekki ólíklegt að Hagkaup hefji áfengissölu

Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups, telur óhætt að hefja undirbúning áfengissölu …
Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups, telur óhætt að hefja undirbúning áfengissölu í versluninni.

Sig­urður Reyn­alds­son, framkvæmdastjóri Hagkaupa, segir ekki ólíklegt að áfengisverslun opni í netverslun Hagkaupa á komandi misserum.  

„Við erum farin að skoða undirbúning á einhverskonar útfærslu á vefverslun á komandi mánuðum eða misserum.“

Heildsöluverslunin Costco hóf í gær sölu á áfengi í netverslun sinni fyrir einstaklinga, en kaupendur geta stofnað aðgang á síðu verslunarinnar, pantað áfengið og sótt á lager. 

Sigurður segir Hagkaup þegar vera með vefverslun fyrir snyrtivörur, leikföng, sérvörur og nýlega veisluþjónusta, og sé því með vettvang þar sem auðvelt væri að reka áfengissölu. 

Hið opinbera leyfi reksturinn 

Hann segir Hagkaup hafa ákveðið að vera ekki fremst í flokki í svona tilraunum á sínum tíma, en það sé að verða ljóst að verslanirnar fái að opna og vera starfræktar án inngripa frá yfirvöldum. 

„Maður getur ekki túlkað það öðruvísi en að hið opinbera sé í rauninni að leyfa þennan rekstur,“ segir Sigurður, en hann segir viðhorf fyrirtækisins gagnvart áfengissölu í netverslunum vera að breytast. 

Sigurður segir fyrirtækið upphaflega hafa óttast að yfirvöld myndu beita sektum eða fara í málaferli. Nú sé hins vegar orðið ljóst að mótlæti yfirvalda við sölunni sé lítið sem ekkert. 

„Við túlkum að okkur sé óhætt að byrja og hefja undirbúning,“ segir Sigurður, en hann segir að ferlið muni taka einhverja mánuði „en vinnan við það er bara farin af stað.“

Heimkaup hóf heimsendingar á áfengi í fyrra, en Costco opnaði …
Heimkaup hóf heimsendingar á áfengi í fyrra, en Costco opnaði netverslun á áfengi í gær með „smelltu og sæktu þjónustu,“ Heiðar Kristjánsson

Innlend félög ekki stöðvuð í áfengissölu

Sigurður telur að hið opinbera sé komið í klemmu vegna stöðunnar „Það er náttúrulega ekki sanngjarnt að þú getur pantað vín úr erlendri vefverslun og fengið sent heim til þín, en ekki á Íslandi. Ég held að það standist ekki skoðun þegar allt er lagt á borðið.“

Vínverslunin Sante var fyrst til að finna leið í kring um löggjöf um áfengissölu, með því að selja áfengi í gegn um erlent félag, sem heldur úti vörulager hér á landi. Sigurður kveðst hins vegar vita til innlendra félaga sem hafi látið reyna á áfengissölu í vefverslun og það hafi ekki heldur verið stöðvað.

Spurður kveðst hann ekki telja að yfirvöld muni grípa inn þegar stærri verslanir slást í leikinn á sölu áfengis á netinu. „Hvenær verður áfengissala gefin frjáls í matvöruverslunum. Það er stóra skrefið sem menn kannski bíða eftir í framhaldinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka