Fækkar í þjóðkirkjunni en fjölgar mest í Siðmennt

Meðlimum þjóðkirkjunnar hefur fækkað um 799 manns síðan fyrsta desember …
Meðlimum þjóðkirkjunnar hefur fækkað um 799 manns síðan fyrsta desember á síðasta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frá fyrsta desember á síðasta ári hefur skráðum einstaklingum í þjóðkirkjunni fækkað um 799. Á sama tímabili hefur meðlimum í trú- og lífsskoðunarfélögum fjölgað mest í Siðmennt eða um 235 manns sem er um 4,4 prósent fjölgun í félaginu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þjóðskrá.

Þjóðkirkjan er fjölmennasta trú- og lífsskoðunarfélag landsins með um 225 þúsund skráða einstaklinga. Meðlimum í þjóðkirkjunni heldur áfram að fækka en fyrsta desember 2019 voru 65,2 prósent þjóðarinnar skráð í þjóðkirkjuna en nú eru um 57,7 prósent þjóðarinnar skráð í þjóðkirkjuna.

Á eftir þjóðkirkjunni kemur kaþólska kirkjan með 14.985 skráða meðlimi og í þriðja sæti er Fríkirkjan í Reykjavík með 9.927 skráða meðlimi. 

Ótilgreindum skráningum fjölgað mest

Næstmesta fjölgunin á þessu ári var í kaþólsku kirkjunni og Ásatrúarfélaginu en þar fjölgaði meðlimum um 136 manns í báðum félögum. Hlutfallslega var mesta fjölgunin hjá lífsskoðunarfélaginu Lífspekifélag Íslands eða um 65,5 prósent. Meðlimir í Lífspekifélagi Íslands eru nú 48 talsins.

30.283 manns eru skráðir utan trú- og lífsskoðunarfélaga hér á landi en það nemur um 7,7 prósentum þjóðarinnar. Þá vekur það athygli að um 77.535 manns eru skráðir með ótilgreinda skráningu hjá Þjóðskrá sem þýðir að einstaklingur hefur ekki tekið afstöðu til skráningar í trú- eða lífsskoðunarfélag. 

Einstaklingum með ótilgreinda skráningu hefur fjölgað um tæplega 22 þúsund manns frá fyrsta desember árið 2020. Fleiri eru nú skráðir með ótilgreinda skráningu en þeir sem eru skráðir í önnur trú- og lífsskoðunarfélög en þjóðkirkjuna.

Hér er hægt að sjá hlutfall þeirra sem eru í …
Hér er hægt að sjá hlutfall þeirra sem eru í trú- og lífsskoðunarfélögum og þeirra sem standa utan trúfélaga. Athygli vekur að fleiri eru nú skráðir með ótilgreinda skráningu en þeir sem eru skráðir í önnur trú- og lífsskoðunarfélög en þjóðkirkjuna. Mynd/Þjóðskrá
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert