Kennarasamband Íslands mun formlega skila gamla Kennarahúsinu við Laufásveg 81 í dag. Árið 2020 flutti sambandið í stærra húsnæði vegna fjölgunar í félaginu í gegnum árin.
Samkvæmt samkomulagi sem gert var árið 1989 þegar ríkið gaf KÍ húsið til yfirráða gat sambandið hvorki selt húsið né leigt en fær kostnað endurbóta á húsnæðinu endurgreiddan.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kennarasambandinu.
Húsið var reist árið 1908 og tók Kennaraskóli Íslands til starfa í húsinu sama haust. Starfsemi Kennarasambandsins hófst þar árið 1991 eftir miklar endurbætur en þá voru félagar sambandsins um 3.500, árið 2020 voru þeir orðnir nærri 11 þúsund.
„Kennarasamband Íslands kveður nú Kennarahúsið við Laufásveg sem á sérstakan stað í hjörtum fjölmargra félagsmanna. Það er von KÍ að húsinu verði fundið verðugt hlutverk í framtíðinni,“ segir í tilkynningunni.
Húsið verður afhent ríkinu við hátíðlega athöfn í dag klukkan 15.00 og verður Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra viðstödd.