Velsældarþing, alþjóðleg ráðstefna um velsæld og sjálfbærni, fór fram í Hörpu í dag. Fjöldi stjórnmálamanna og sérfræðinga víðsvegar að úr heiminum fluttu erindi á rástefnunni.
Markmið ráðstefnunnar eru að efla samstarf ríkja um velsældarhagkerfi og sjálfbærni og stuðla að umræðu opinberra aðila, atvinnulífs og almennings um hvernig hafa megi velsæld fólks og náttúru að leiðarljósi í stefnumótun og ákvarðanatöku til að byggja upp farsælt samfélag til framtíðar.
Ráðstefnan hófst með ávarpi Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Í ræðu sinni lagði Katrín áherslu á mikilvægi jafnréttis kynjanna. „Við höfum tekið framförum en við hættum aldrei,“ sagði Katrín um nauðsyn jafnréttis á öllum sviðum samfélagsins. Bætti hún við að launamunur kynjanna væri enn vandamál.
Hún minntist einnig á loftslagskreppuna og sagði velsæld mannanna og plánetunnar vera nátengdar.
„Loftslagskreppan hefur neytt okkur til að endurskoða lifnaðarhætti okkar,“ sagði Katrín og bætti við að það myndi kosta mun meira að gera ekki neitt.
Dr. Hans Kluge, framkvæmdastjóri Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, var meðal þeirra sem tóku þátt í ráðstefnunni í dag.
Kluge hóf ræðu sína á því að bjóða góðan daginn á íslensku. Hann talaði meðal annars um hækkun framfærslukostnaðar, fátækt og frið.
„Friður er lyfið sem við þurfum á að halda nú til dags,“ sagði Kluge.
Hann benti einnig á að 25 lönd eyði yfir 20% af tekjum sínum í skuldir og geti þar af leiðandi ekki varið eins miklu fjármagni og þau ættu að gera í velsæld og heilsu fólksins.
„Maður er manns gaman“ og „Góð heilsa er gulli betri“, sagði Kluge, á íslensku, í lok ræðu sinnar.
Alma Möller landlæknir flutti einnig erindi á ráðstefnunni.
Hún talaði meðal annars um áskoranir sem steðja að lýðheilsu, svo sem svefnleysi, óhollt mararæði, skort á hreyfingu, versnandi andlega heilsu, vaxandi kvíða, streitu og einmanaleika, fíkn og mikla vímuefnaneyslu.
Mikilvægt væri að stuðla að heilbrigðum líffstíl, sofa nóg, huga að andlegri heilsu og draga úr áfengis- og tóbaksneyslu.
„Við eigum að stefna að velsæld,“ sagði Alma.
Ráðstefnunni lauk með erindi hjónanna Kate Pickett, prófessors í faraldsfræði við háskólann í York, og Richard Wilkinson, heiðursprófessors í félagslegri faraldsfræði við háskólann í Nottingham.
Fjölluðu þau um tengsl misréttis og velsældar.
Meðal þess sem fram kom var að stöðukvíði (e. status anxiety) væri meiri í löndum þar sem ójöfnuður er mikill.
Þá væri morðtíðni hærri í ójafnari ríkjum Bandaríkjanna og kanadískum héruðum.