„Gösun svína með koltvíoxíðgasi teljum við vera ómannúðlega aðferð. Vegna þess að gasið er svo ertandi og það veldur dýrunum mikla þjáningu og ótta en gasið myndar sýru í slímhúð, í augum, nefi, munni og lungum.“
Þetta segir Linda Karen Gunnarsdóttir, formaður Dýraverndarsambands Íslands, spurð um viðbrögð við notkun Stjörnugríss á gasi til að deyfa svín áður en að þau eru blóðguð.
Eins og greint hefur verið frá er sláturhús Stjörnugríss á Kjalarnesi eina svínasláturhúsið á Íslandi sem notar koltvíoxíðgas til að deyfa svín áður en þau eru aflífuð. Hin þrjú svínasláturhúsin nota rafmagnsklemmur en Sigurður Berntsson, rekstrarstjóri Stjörnugríss, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að gasið væri töluvert mannúðlegri aðferð en rafklemmurnar til að deyfa svínin.
Linda tekur fram að koltvíoxíðgas valdi mikilli köfnunartilfinningu hjá dýrunum en hún segir það óviðunnandi.
„Það á að banna deyfingu með notkun koltvíoxíðgass með lögum. Deyfing með koltvíoxíðgasi hefur verið kynnt sem mannúðleg aðferð þar sem dýrin eru höfð saman sem felur í sér minna stress fyrir þau sem hjarðdýr. Ljóst er að með þessari aðferð er hinsvegar hægt að aflífa fleiri dýr yfir daginn og er þannig til mikils hægðarauka fyrir þá sem standa að þessu.“
Hún segir þá að þetta sé algengasta aðferðin við deyfingu á svínum erlendis og segir að það sé villt um fyrir almenningi með því að segja þetta vera mannúðlegri aðferð þegar í rauninni geta þeir aflífað enn fleiri dýr á styttri tíma.
Þá tekur hún ekki undir orð Sigurðar Berntsson um að deyfing með gasi sé mannúðlegri en deyfing með rafklemmu.
„Deyfing með rafmagni er talin vera mannúðlegri aðferð. Það eru auðvitað gallar við þá aðferð, það er stressandi fyrir dýrið að vera fært frá hinum en ef þetta er rétt gert þá verður dýrið strax meðvitundarlaust áður en það er aflífað.“
„Við hjá Dýraverndarsambandinu höfum áhyggjur af því hvað svínabúskapur er falinn hér á landi. Við höfum einnig áhyggjur af því hvernig dýravelferð er virt að vettugi af hálfu hagsmunaraðila og regnhlífasamtaka í þágu greinarinnar en um er að ræða verksmiðjubúskap. Þetta er iðnaður og það þarf að lyfta hulunni af þessum iðnaði.“