Hafa aðrir nemendur fengið svona símtal?

Dagbjartur hefur fulla ástæðu til að brosa, hann er kominn …
Dagbjartur hefur fulla ástæðu til að brosa, hann er kominn inn í Fjölbraut í Ármúla. En hvað með önnur fötluð börn, mismunar íslenska skólakerfið þegnum sem ættu að eiga skilyrðislausan rétt á skólavist eins og allir aðrir? Ljósmynd/Aðsend

„Ég fékk bara símtal frá Fjölbraut í Ármúla í dag, frá kennslustjóra sérnámsbrautarinnar, og þá fékk ég að vita að hann hefði fengið skólavist,“ segir Gyða Sigríður Björnsdóttir í samtali við mbl.is í kvöld.

Gyða og maður hennar, Ólafur J. Engilbertsson, eiga Dagbjart Sigurð Ólafsson, fatlaðan dreng sem fékk nánast að sjá sína sæng upp reidda þegar Menntamálastofnun tjáði foreldrum hans að ekki væri á vísan að róa með skólavist fyrir hann í framhaldsskóla. Dagbjartur var að klára 10. bekk í Klettaskóla og stríðir við töluverða fötlun, heilkenni brotgjarns X svokallað, eins og mbl.is greindi frá í síðustu viku.

Eðlilega gleðjast Gyða og Ólafur yfir tíðindunum en ekki er sopið kálið þótt í ausuna sé komið. „Ég myndi vilja vita hvort aðrir nemendur, eða forráðamenn þeirra, hafi fengið svona símtal,“ segir Gyða, „ég var í samskiptum við aðra mömmu í Klettaskóla í dag og þá hafði hún ekki fengið skólavist fyrir sitt barn.“

En skilur Dagbjartur sjálfur hvað hefur gerst?

„Dagbjartur lifir algjörlega í núinu og er ekki mikið að velta þessu fyrir sér. Við segjum honum auðvitað að hann sé að fara í skóla og hann finnur auðvitað á okkur foreldrunum hvað okkur er létt,“ svarar Gyða sem er mjög ánægð með að drengnum hafi veist skólavist í FÁ.

Mæðginin eru ánægð með málalokin, Dagbjartur kominn inn í einn …
Mæðginin eru ánægð með málalokin, Dagbjartur kominn inn í einn besta skólann sem sinnt getur hans þörfum, FÁ. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er kannski sá skóli sem er einna best í stakk búinn til að taka við nemendum á hans stigi, þarna er mjög fín aðstaða sem er sérstaklega smíðuð utan um þeirra þarfir og FÁ var okkar fyrsta val,“ segir Gyða, vongóð um framtíð sonarins sem fyrir viku átti sér enga framtíð í haust innan íslensks skólakerfis. Því ber þó skylda til að sinna öllum, háum sem lágum, eins og forstjóri Menntamálastofnunar sagði mbl.is í viðtali.

„Þessi óvissa var mjög erfið en það sem mér finnst verst er að það þurfi alltaf að vera að ýta á eftir lögbundnum réttindum í þessu kerfi. Einhvern veginn er skólakerfið ekki undir það búið að taka við þessum börnum þegar þau útskrifast og ég bara vona heitt og innilega að hægt sé að finna farveg eða ferla svo þetta þurfi ekki að vera svona ár eftir ár,“ segir Gyða.

„[Menntamála]ráðherra sagði í viðtali í síðustu viku að „í undirbúningi væru breytingar á því hvernig innritað er á starfsbrautir og hvernig þjónustan verði byggð upp við þessa nemendur í framhaldsskólakerfinu í framtíðinni. Ég býð mjög spennt eftir því að heyra meira um þetta og hvað á að gera núna gagnvart þeim nemendum sem ekki hafa fengið skólavist.

Eiga íslenskir skattgreiðendur að búa við að „kerfið“ svokallaða úthýsi …
Eiga íslenskir skattgreiðendur að búa við að „kerfið“ svokallaða úthýsi nemendum sem eiga undir högg að sækja? Eiga fatlaðir nemendur ekki sama rétt og aðrir á Íslandi? Ljósmynd/Aðsend


Nú byrjar Dagbjartur í skólanum í ágúst, á fjögurra ára starfsbraut í FÁ. „Guði sé lof, að þetta mál er leyst. En við vitum að það bíða fleiri áskoranir handan við hornið og höfum fylgst með baráttu fatlaðra ungmenna fyrir búsetu þar sem hefur þurft málaferli til þess að fá upplýsingar um hvar á biðlistanum þau eru stödd. Það er alltaf þetta, maður veit aldrei næsta skref, og það er þetta sem ég myndi vilja sjá lagast á Íslandi,“ segir Gyða Sigríður Björnsdóttir undir lokin, móðir Dagbjarts Sigurðar Ólafssonar sem nú hefur fengið skólavist í Fjölbraut í Ármúla.

„Það er allt of algengt að allir sem eru aðeins utan við þennan normal ramma þurfi alltaf að berjast fyrir sínum réttindum, þetta á ekki að vera svona,“ segir Gyða og nefnir sextán ára bekkjarsystur Dagbjarts.

„Nú fá foreldrar hennar ekki lengur aðgang að Heilsuveru fyrir hana af því að hún er sextán ára og af því að hún getur ekki sjálf valið aðgangsnúmer fyrir rafræn skilríki. Til þess að þau megi aðstoða hana þurfa þau að gerast talsmenn hennar en það má hins vegar ekki fyrr en hún er átján ára. Þannig að þær tæknilausnir sem aðrir nota standa ekki þeim til boða sem þurfa aðstoð Allt kerfið þarf bara að taka þennan hóp með, ekki skilja hann eftir. Við þurfum að hugsa allt samfélagið þannig að það sé ekki útilokandi fyrir ákveðna hópa,“ segir Gyða að skilnaði, að vonum sátt við að fá drenginn sinn inn í framhaldsskóla, nokkuð sem ætti að vera skýlaus réttindi allra íslenskra barna, en þar virðast þó ekki allir sitja við sama borð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert