Hafa innheimt 92 milljónir króna

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði launaleiðréttinguna ekki geðþóttaákvörðun.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði launaleiðréttinguna ekki geðþóttaákvörðun. Samsett mynd

Fjársýsla ríkisins hefur innheimt 92 milljónir króna vegna ofgreiddra launa opinberra starfsmanna. Þetta hefur annars vegar verið gert með því að draga af launum þeirra einstaklinga sem eru á launaskrá og hins vegar með því að senda þeim, sem ekki eru lengur á launaskrá hjá ríkinu, reikning í heimabanka.

Þetta kemur fram í svari Fjársýslu ríkisins við fyrirspurn mbl.is.

Einn ætlar ekki að greiða

Þar segir einnig að einn einstaklingur hafi upplýst Fjársýsluna og fjármála- og efnahagsráðuneytið um að hann ætli ekki að greiða til baka ofgreidd laun. 

Áður hefur verið greint frá því að einn héraðsdómari hafi ætlað að láta reyna á kröfu Fjársýslunnar fyrir dómi, en í maí féll dómur um að ríkið hafi ekki mátt lækka launin og krefjast endurgreiðslu á ofgreiddum launum.

Heildarupphæðin 105 milljónir 

Í júlí á síðasta ári var greint frá því að Fjársýslan myndi leiðrétta ofgreidd laun 260 opinberra starfsmanna eftir að mistök komu í ljós. Nam heildarupphæðin 105 milljónum króna.

Dómarafélag Íslands mótmælti þessu harðlega og sagði Kjart­an Björg­vins­son, formaður félagsins, að um fyrirvaralausa launalækkun hefði verið að ræða.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði það ekki rétt heldur væri verið að leiðrétta launin. Fjárhæðin væri lögákveðin og ekki geðþóttaákvörðun fjármálaráðherra.

Fólkið í landinu ætti ekki að þurfa að hlusta á að það sé flókið fyrir efsta lag ríkisins, æðstu embættismennina, að skila því sem ofgreitt var úr opinberum sjóðum. Annað væri hrikalegt fordæmi og er ekkert minna en siðferðisbrestur,“ sagði hann jafnframt í færslu á Facebook.

95,3 milljónir dregnar af launum

Í svari Fjársýslunnar segir að sú heildarfjárhæð sem draga á af launum sé 95,3 milljónir króna en nú þegar sé búið að draga af launum 89% af þeirri upphæð, eða um 84,8 milljónir króna.

Heildarfjárhæð sú sem hver og einn hafði fengið ofgreidda er að meðaltali um 416 þúsund eða um 35 þúsund krónur á mánuði miðað við 12 mánaða tímabil. 

Þann 1. júní var búið að innheimta 7,2 milljónir króna af 9,7 milljónum króna, eða um 74% frá þeim sem ekki eru lengur á launaskrá hjá ríkinu. Vert er að geta þess að 74% taka mið að reikningum sem greiddir voru í maímánuði.

Mismunur er því á fjölda mánaða sem tekið er mið af í hlutfallstölum eftir því hvort dregið er af launum eða innheimt með reikningum, þar sem búið er að draga af launum sem greidd voru 1. júní.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert