„Við fögnum vönduðu áliti Skipulagsstofnunar, sem er í mjög góðu samræmi við okkar áætlanir. Carbfix gerði frá upphafi ráð fyrir að byggja svæðið upp í áföngum. Þótt umhverfismatið snúi að allt að 400 þúsund tonna árlegri bindingu á CO2 er aðeins lítill hluti þess magns á döfinni á næstu tveimur árum eða svo,“ segir Ólafur Teitur Guðnason samskiptastjóri Carbfix, inntur eftir viðbrögðum við áliti Skipulagsstofnunar um umhverfisáhrif niðurdælingarinnar á CO2 á Hellisheiði.
Hann segir tvö verkefni bera þar hæst. Að auka bindingu á CO2 úr útblæstri Hellisheiðarvirkjunar úr um 12 þúsund tonnum á ári upp í um 40 þúsund tonn og í öðru lagi að auka bindingu á CO2 sem svissneska fyrirtækið Climeworks fangar úr andrúmsloftinu úr um 4 þús. tonn á ári upp í um 40 þús. tonn á ári.
„Að auki vonumst við til að hefja bindingu á CO2 frá fleiri aðilum á næstu árum, en þó í tiltölulega litlu magni a.m.k. fyrst um sinn. Enn sem komið er eru engin önnur fastmótuð verkefni fyrir hendi um frekari bindingu á svæðinu.
Í samræmi við þetta hefur Carbfix sótt um starfsleyfi til Umhverfisstofnunar fyrir bindingu á rúmlega 100 þús. tonnum af CO2 á ári á Hellisheiði, sem er aðeins um einn fjórði af því magni sem umhverfismatið lýtur að.
Við tökum því heilshugar undir ábendingar Skipulagsstofnunar um að byggja svæðið upp í skrefum, og það samræmist vel okkar áætlunum,“ segir Ólafur Teitur í svari til Morgunblaðsins.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.