Kvörtunum vegna fram­komu fjölgaði um 74 prósent

Kvörtunum vegna framkomu bílstóra Strætó hefur fjölgað verulega.
Kvörtunum vegna framkomu bílstóra Strætó hefur fjölgað verulega. mbl.is/sisi

Kvörtunum vegna framkomu strætóbílstjóra til Strætó hefur fjölgað úr 321 árið 2018 í 560 árið 2022. Þá hefur kvörtunum vegna aksturslags einnig fjölgað úr 317 í 352 á sama tímabili. Þess má geta að mesta fjölgun kvartana vegna framkomu bílstjóra var á milli áranna 2021 og 2022 en þá fjölgaði þeim úr 342 í 560.

Þetta kemur fram í svari Strætó við fyrirspurn Kolbrúnar Áslaugar- Baldursdóttur, borgarfulltrúa Flokks fólksins, um meðhöndlanir kvartana og hvort fylgst sé náið með aksturslagi bílstjóra.

Sé 560 kvörtunum deilt niður á daga ársins kemur í ljós að til þess að ná þessum fjölda fram þyrftu að berast rúmlega ein og hálf kvörtun á dag vegna framkomu. 

Mikilvægt að svara erindum

Í bókunum sínum vegna málana tveggja lýsir borgarfulltrúinn yfir áhyggjum vegna beggja flokka.

Í svari Strætó vegna meðhöndlunar kvartana kemur meðal annars fram að unnið sé að hinum ýmsu úrlausnum þegar kvartanir berist, alvarleiki greindur og viðskiptavinum svarað. 

„Úrlausnirnar eru margskonar, allt eftir eðli og alvarleika ábendinga. Ábendingar og úrlausnir þeirra geta t.d. snúið að leiðakerfi, ástandi vagna, tímasetningum, framkomu vagnstjóra og aksturslagi. Unnið er að úrlausnum allra þessara málaflokka með því að greina alvarleika, ræða við viðkomandi aðila, vinna að úrbótum og svara viðskiptavinum,“ segir í svarinu.

Kolbrún Áslaugar- Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.
Kolbrún Áslaugar- Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins. mbl.is/Ágúst Ólíver

Kolbrún segist þó hafa heyrt af mörgum sem að hafi sent inn kvartanir, fyrirspurnir og ábendingar en engin svör fengið.

„Vissulega skiptir mestu að leysa úr því sem að er og leiðrétta agnúa en til að „loka hringnum” er mikilvægt að sá sem sendir inn eitthvað af þessu þremur ofangreindu fái svar eða einhver viðbrögð,“ segir í bókun Kolbrúnar.

Spyr hvað Strætó sé að gera í málunum

Hvað varðar aksturslag bílstjóra segir Kolbrún nauðsynlegt að Strætó bregðist tafarlaust við þegar kvartanir vegna þessa komi á þeirra borð, sé það ekki gert sé möguleiki á því að sögur endi á samfélagsmiðlum og heil stétt dæmd.

Í svari Strætó vegna aksturslagsins kemur fram að gott aksturslag, öryggi og þjónustulund sé ítrekuð fyrir nýliðum.

„Í grunn- og nýliðaþjálfun er ítarlega farið yfir mikilvægi góðs aksturslags vagnstjóra þannig að umgengni við vagninn og öryggi farþega og annarra vegfarenda sé tryggt. Jafnframt er lögð áhersla á að þjónustuviðmiðunum sé framfylgt og vagnstjórar sýni ávallt kurteisi og þjónustulund,“ segir í svari Strætó.

Í kjölfarið á samskiptum þessum lagði Kolbrún fram enn eina fyrir spurnina vegna mála Strætó á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í morgun. Snýr hún að fjölgun kvartana vegna framkomu. Óski Flokkur fólksins eftir skýringa á fyrrnefndri fjölgun, hvort þjónustustefna Strætó nái ekki nógu vel til bílstjóra og hvað Strætó sé að gera í málunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert