Örn Ragnarsson tók við formennsku í Félagi trérennismiða á Íslandi fyrir um tveimur árum og hefur síðan rifið starfsemina upp með kynningu vítt og breitt um landið. „Þegar ég tók við sem formaður ákvað ég að gera átak í því að kynna félagið og trérennismíðina um allt land,“ segir hann.
Stofnfundur félagsins var 24. júní 1994 og framhaldsstofnfundur 14. febrúar 1995. Var þá ákveðið að allir sem gengju í félagið á árinu teldust með sem stofnfélagar og voru þeir 80 í árslok.
Örn segir að félagið hafi verið í ákveðinni kyrrstöðu og hann hafi haft skoðanir á því hvernig efla bæri starfið. Hann hafi verið tekinn á orðinu og eftir að hafa tekið við stjórninni hafi hann brett upp ermar og látið verkin tala.
„Nærri 60 félagar hafa bæst við síðan ég byrjaði og nú eru þeir tæplega 280,“ segir Örn, sem var lengi kennari og síðan starfsmaður Rauða krossins, þar sem hann sá um fatasöfnunina þar til hann fór á eftirlaun.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í gær.