Lokað fyrir einkaskilaboð til lögreglunnar

Samsett mynd

Á morgun verður lokað fyrir móttöku einkaskilaboða á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Frá og með morgundeginum verður því ekki hægt að senda lögreglunni ábendingar eða fyrirspurnir í gegnum Facebook.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Aðspurður segir Þórir Ingvarsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að ákvörðunin hafi hvorki verið tekin í sparnaðarskyni né vegna nettrölla sem herja á lögregluna í einkaskilaboðum á Facebook.

„Það hefur ekkert komið upp á. Einhver spurði hvort nettröllin hafi eitthvað verið að stríða okkur en þvert á móti þá þykir okkur vænt um öll nettröllin okkar.“

Gert til að vernda persónuupplýsingar notenda

Hann segir helstu ástæðuna fyrir því að lokað sé fyrir þessa samskiptaleið við lögregluna sé að vernda viðkvæmar persónuupplýsingar þeirra sem að hafa samband við lögregluna.

„Það er búið að vera í umræðunni lengi hvort það sé forsvaranlegt, út af öryggismálum, að vera með einkaskilaboðin því að þau eru vistuð í Bandaríkjunum hjá einkafyrirtæki,“ segir hann og á við stórfyrirtækið Meta sem er móðurfyrirtæki Facebook og Instagram.

Hann segir að lögreglan hafi fengið fyrirspurnir frá Persónuvernd vegna vörslu einkaskilaboða og ítrekar að Facebook sé ekki rétti staðurinn til að kalla út lögreglu eða koma með fyrirspurnir tengdar ákveðnum málum.

„Við erum ekkert að minnka þjónustu. Hópurinn sem hefur verið að svara einkaskilaboðum mun einbeita sér að því að flýta svörum í gegnum aðra miðla. Þetta er ekki minni vinna eða ódýrara eða neitt svoleiðis. Við breytum þessu því við teljum þetta öruggari leið,“ segir hann.

Margar leiðir til að hafa samband við lögregluna

Þórir minnir þá á að ýmsar leiðir má fara til að hafa samband við lögregluna og bendir á netfangið abendingar@lrh.is. Tölvupóstum sem þangað berast er svarað á skrifstofutíma, alla virka daga.

Jafnframt minnir hann á símanúmer þjónustuvers lögreglunnar í síma 444-1000 og símanúmer Neyðarlínunnar, 112. Lögreglan heldur einnig úti upplýsingasíma 800-5005 en í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um skipulagða brotastarfsemi, eða önnur brot sem fólk hefur vitneskju um.

Hann segist vona að þessi breyting komi ekki til með að skerða samskipti almennings við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu.

„Auðvitað óttumst við það. Það er alltaf ótti þegar við lokum einhverju svona. Við viljum ekki að fólk haldi að við séum að loka síðunni eða loka fyrir ummæli við færslur. Við viljum alls ekki að það sé lokað. Við viljum einmitt eiga sem flestar samskiptaleiðir við fólk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert