Bygging nýs 390 metra langs viðlegukants í Helguvík í Reykjanesbæ og 25.000 rúmmetra olíubirgðageymslu, verður fullfjármagnað af Atlantshafsbandalaginu. Framkvæmdin er metin á um 5 milljarða króna án virðisaukaskatts.
Mikil uppbygging er á þá innviði Íslands sem tengjast varnar- og öryggismálum. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra Íslands, segir í samtali við mbl.is að staða Íslands á alþjóðavettvangi hafi sjaldan verið jafn sterk.
Byggður verður viðlegukantur í Helguvík að öllu óbreyttu, ef Reykjanesbær samþykkir það. Þórdís segir að Atlantshafsbandalagið fullfjármagni það verkefni. Viðlegukanturinn verður notaður til að þjónusta herskip NATO.
„Ef af þessu verkefni verður, sem ég geri ráð fyrir að verði, þá verður það alfarið greitt af Atlantshafsbandalaginu.“
Ekki er bara verið að gera viðlegukant í Helguvík heldur er líka verið að stækka olíubirgðageymsluna sem er þar fyrir, um 20%. Mikill birgðaskortur er á skipaeldsneyti á Norður-Atlantshafi.
„Það er samdóma álit sérfræðinga NATO að birgðageymsla fyrir þetta eldsneyti á Íslandi myndi bæta verulega úr þessum skorti. Ísland lagði til Helguvík, meðal annars vegna núverandi aðstöðu þar nú þegar, en líka vegna nálægðar við öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli,“ segir Þórdís.
Spurð af hverju þessi aukna uppbygging sé að eiga sér stað segir hún það vera bæði vegna breyttrar heimsmyndar en líka bara hefðbundna viðhaldsvinnu NATO ríkja.
„NATO þróast auðvitað í takti við tímann. Það þarf að halda við verkefnum og setja ný verkefni af stað. Í öryggis- og varnarmálum skiptir staðsetning okkar gífurlega miklu máli,“ segir hún og bætir við að framlag Íslendinga til NATO snúist ekki bara um öryggi okkar, heldur líka bandalagsþjóða.
„Það er mikilvægt að halda því til haga að svona verkefni og fjárfestingar snúast ekki bara um að tryggja öryggi okkar, heldur er þetta einnig okkar hlutverk sem verðugur bandamaður og skylda okkar gagnvart bandalagsþjóðum okkar sem við verðum að sinna.“
Er staða Íslands á alþjóðavettvangi sterkari nú en áður?
„Já, ég tel það og staða Íslands er sterk á alþjóðavettvangi. Það endurspeglast til dæmis í því að við héldum Evrópuráðsfundinn. Ég tek eftir því að það er hlustað á okkur.“