Notkun ópíóíða meðal landsmanna virðist ekki hafa breyst mikið á undanförnum misserum skv. nýju yfirliti Landlæknis sem birt er í Talnabrunni, fréttabréfi embættisins.
Þær upplýsingar ná til löglegrar dreifingar ópíóða en ekki lagt mat á ólöglegan innflutning. Frá 2020 fjölgaði umtalsvert þeim einstaklingum sem leystu út lyfjaávísanir á ópíóíða en sú aukning er talin hafa stafað að verulegu leyti, um 70% af fjölguninni, að vegna útbreiðslu covid-19 var heimilað að afgreiða 10 stykkja pakkningar af parkódíni, sem er ópíóíði í flokki kódíns og parasetamóls.
„Þetta samsvarar því að ríflega 69 þúsund einstaklingar hafi leyst út að minnsta kosti eina ávísun á ópíóíða á árinu 2022 samanborið við ríflega 57 þúsund árið 2020. Af þeim ríflega 69 þúsund einstaklingum sem leystu út ópíóíða árið 2022 voru ríflega 5.600 sem leystu eingöngu út 10 stykkja pakkningu af parkódíni. Fjölgun þeirra sem leystu út ópíóíða árið 2022 má því að umtalsverðum hluta til rekja til þessa,“ segir í umfjöllun Ölmu D. Möller landlæknis um tölurnar fyrir seinasta ár.
Í Talnabrunni segir að þegar borin er saman þróun í notkun ópíóíða á fyrstu fimm mánuðum yfirstandandi árs við sömu mánuði 2014-2022 má sjá að fjöldi þeirra sem fengu afgreidda ópíóíða í janúar til maí 2023 er svipaður því sem var árin 2020 og 2021. Ísland er eina Norðurlandaþjóðin þar sem sala á ópíóíðum jókst milli áranna 2020 og 2021. Dregið hefur úr sölu ópíóíða í öllum hinum norrænu löndunum á síðasta áratug og var t.d. sala á Íslandi tæplega 33% meiri en í Noregi árið 2021.