Samþykktu framkvæmdarleyfi vegna Hvammsvirkjunar

Væntanleg stífla í Þjórsá verður skammt fyrir ofan Viðey, sem …
Væntanleg stífla í Þjórsá verður skammt fyrir ofan Viðey, sem blasir við vegafarendum á hægri hönd þegar ekið er inn í Þjórsárdal. mbl.is/Sigurður Bogi

„Ég hef fulla trú á því að þegar fram líða stundir þá horfi menn til baka og verði sáttir við þessa afgreiðslu,“ segir Haraldur Þór Jónsson, sveitarstjóri Skeiða- og Gnúp­verja­hrepps, en sveitarstjórn þar samþykkti í dag að veita framkvæmdaleyfi til Landsvirkjunar vegna Hvammsvirkjunar í Þjórsá.

Sveitarstjórn Rangárþings ytra frestaði málinu fram til næsta aukafundar sveitarstjórnar, sem er á dagskrá hinn 23. júní nk., til að umhverfisnefnd sveitarfélagsins gæfist kostur á að fjalla um málið.

Haraldur segir að það kæmi sér verulega á óvart ef Rangárþing ytra myndi ekki samþykkja að veita framkvæmdaleyfi og bætir við að meiri andstaða hafi verið í Skeiða- og Gnúpverjahreppi heldur en í Rangárþingi ytra.

Meirihluti íbúa hlynntur framkvæmdinni

Framkvæmdaleyfið var samþykkt með fjórum atkvæðum gegn einu. Er Haraldur var spurður út í það segir hann: „Það lá alltaf fyrir að það yrði ekki einhugur í sveitarstjórn,“ en bætir við.  „Það er töluverður meirihluti íbúa hlynntur framkvæmdinni og það er léttir að geta sett endapunkt á þetta. Nú getum við horft til framtíðar á þau tækifæri sem hægt er að nýta.“

Hann segir sveitarfélagið hafa skipað eftirlitsnefnd með framkvæmdinni, sem sé í fyrsta sinn sem það er gert.

Að lokum hafði hann þetta að segja.  „Við höfum lagt mjög mikla vinnu í þetta og það hefur verið mikið samtal og samráð og við einfaldlega teljum okkur vera búin að vinna þetta það vel að við erum kominn á þann tímapunkt að einhvern tímann þarf þetta að enda.“

Haraldur Þór Jónsson sveitastjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps.
Haraldur Þór Jónsson sveitastjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert