Segir ekkert varhugavert við að gasa svín

Eitt svínasláturhús notar gas til að deyfa svín fyrir blóðgun.
Eitt svínasláturhús notar gas til að deyfa svín fyrir blóðgun. Ljósmynd/Aðsend

Eitt svínasláturhús af fjórum hér á landi notar koltvíoxíðgas til að deyfa svín fyrir blóðgun. Thelma Róbertsdóttir, sérgreinadýralæknir hjá Matvælastofnun (MAST), staðfestir þetta í samtali við mbl.is og segir þetta í rauninni vera eina bestu leiðina sem í boðir er til að deyfa svín.

Vísir greindi fyrst frá.

Thelma ítrekar að þessi leið til að deyfa svínin sé í samræmi við lög um dýravelferð hér á landi og í samræmi við Evrópureglugerð sem var innleidd um vernd við aflífun dýra.

Myndskeið sýnir hvernig svín eru gösuð

Breska dagblaðið Guardian birti í síðasta mánuði myndskeið úr myndavél í sláturklefa í svínahúsi í Bretlandi þar sem koltvíoxíðgas var notað til að deyfa fjögur svín í einu. Deyfingin tekur nokkrar mínútur og virðast svínin verulega óróleg í myndskeiðinu. 

Myndskeiðið var tekið fyrir heimildarmynd sem heitir Pignorant  en að því sem fram kemur í grein Guardian um málið eru um 88 prósent svína í aflífuð með þessum hætti í Bretlandi. Hér fyrir neðan er hægt að sjá myndskeiðið. Við vörum viðkvæma við myndefninu.

Mjög mismunandi myndskeið

Spurð hvort að myndskeiðið sé lýsandi fyrir slátrun svína hér á landi áréttar Thelma að hún hafi ekki séð umrætt myndskeið eins og stóð í frétt Vísis um málið. Hún tekur þó fram að hún hafi séð myndskeið frá aflífun svína með gasi í öðrum löndum.

„Þetta eru mjög mismunandi myndskeið. Ég hef sjálf séð aflífun í þessu sláturhúsi hér á landi og það er ekki í samræmi við þessi slæmu myndskeið sem ég hef séð. Hver og ein aflífun er bara eitt og eitt skipti. Það þarf að passa upp á það sé réttur styrkur á gasinu í réttan tíma.“

Þá ítrekar hún að dýralæknar frá MAST komi í sláturhúsin á hverjum degi til að fylgjast með því hvort að deyfing sé nægileg fyrir blóðgun. Ef deyfing er ekki framkvæmd nægilega vel senda dýralæknarnir frá sér frávikaskýrslu um betrumbætur. Aðspurð segir hún enga frávikaskýrslu hafa borist frá umræddu sláturhúsi vegna aðferða sem eru beittar við aflífun. 

Kostir og gallar við báðar aðferðir

Aðspurð vildi Thelma ekki segja hvaða sláturhús notar þessa aðferð til að deyfa svín en svínasláturhús hér á landi eru samtals fjögur. Tvö þeirra eru staðsett á Akureyri en hin tvö eru á Selfossi og Kjalarnesi. 

Hin þrjú sláturhúsin nota rafdeyfingu fyrir blóðgun. Þar er sett rafklemma á höfuð dýrsins og rafmagni hleypt í gegn sem gerir dýrið samstundis meðvitundarlaust.

„Það eru kostir og gallar við báðar aðferðir. Kosturinn við gösunina er að þau fara nokkur inn í einu og eru þá minna stressuð því þau eru hjarðdýr. Ef hún er gerð rétt er þetta ein af ákjósanlegustu leiðunum fyrir svín. Rafdeyfingin virkar þannig að það er bara deyft eitt dýr í einu og þá þarf að hitta á réttan stað og vera rétt hleðsla á rafmagninu.“ 

Einnig hægt að nota pinnabyssu

Í 21. grein laga um dýravelferð segir að dýr skulu aflífuð með skjótum og sársaukalausum hætti. Að auki er tekið fram að forðast eigi að valda dýrum óþarfa þjáningu eða hræðslu. Jafnframt má ekki aflífa dýr hér á landi án þess að það sé deyft fyrst.

Spurð hvort að þetta séu bestu leiðirnar til að deyfa svínin áður en að þau eru blóðguð svarar Thelma því játandi og að það sé mælt með þessum leiðum til að deyfa svín. Hún bætir við að það sé einnig hægt að aflífa svín með pinnabyssu.

„Þá þarf að skorða svínin vel fyrir og hitta á réttan stað,“ og bætir við að hjarðdýr geti stressast við þessa aðferð.

Álit frá EFSA mælir gegn aðferðinni

Hún segir notkun gass til að deyfa svín vera eina bestu aðferðina sem standi til boða á þessum tíma en bætir við að Mat­væla­ör­ygg­is­stofn­un­ Evrópu (The Europe­an Food Sa­fety Aut­ho­rity, EFSA) sem er undir Evrópusambandinu hafi sent frá sér álit þar sem var tekið fram að það ætti að fasa út þessa aðferð til að deyfa svín.

„En það er náttúrulega ekki til neitt annað núna svo það þarf að finna einhverja betri aðferð til að gera þetta,“ segir Thelma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert