Pöddur, stórar sem smáar, eru athyglisverðar. Það fannst að minnsta kosti ungum og áhugasömum börnum sem lögðu leið sína í Elliðaárdalinn í blíðskaparveðri síðdegis í gær. Ferðafélag Íslands og Háskóli Íslands stóðu fyrir viðburðinum sem haldinn hefur verið undanfarin ár.
Gísli Már Gíslason skordýrafræðingur jós úr viskubrunni sínum um heim skordýranna sem sannarlega geta verið áhugaverð, sérstaklega fyrir ungu kynslóðina. Skordýr eru fjölbreyttasti flokkur dýra á jörðinni og á Íslandi hefur skordýrum fjölgað undanfarin ár af ýmsum ástæðum.