Sláturhús Stjörnugríss á jörðinni Saltvík á Kjalarnesi notar gas til að deyfa svín fyrir blóðgun. Þetta staðfestir Sigurður Berntsson, rekstrarstjóri Stjörnugríss, í samtali við mbl.is.
Hann ítrekar þó að þetta sé nýstárlegasta og mannúðlegasta leiðin til að deyfa svín enn sem komið er.
„Ég held að þetta sé besta fáanlega tækni sem hægt er að nota í dag. Þetta er einn sársaukaminnsti dauðdagi sem til er. Dýrin líða bara út af og sofna. Ég hef ekkert orðið var við einhver öskur eða læti.“
Eins og greint var frá fyrr í dag notar eitt svínasláturhús af fjórum hér á landi koltvíoxíðgas til að deyfa svín áður en þau eru blóðguð. Hin þrjú sláturhúsin nota rafdeyfingu þar sem rafklemma er sett á höfuð dýrsins og rafmagni hleypt í gegn.
Sigurður segist ekki enn sem komið er hafa séð myndskeiðið sem breska dagblaðið Guardian birti af svínum í sláturklefa í sláturhúsi í Bretlandi þar sem koltvíoxíðgas var notað til að deyfa fjögur svín í einu sem virtust mjög óróleg. Hann segir að eitthvað hafi líklega farið úrskeiðis í umræddu myndskeiði.
„Það hlýtur að hafa verið eitthvað að þarna. Þessi dýr sofna bara eins og allir sem fara í koltvíoxíð. Þetta er sennilega einn skásti dauðdaginn. Það hefur eitthvað farið úrskeiðis á skömmtun á koltvíoxíð.“
Sigurður segir að Stjörnugrís hafi notast við gas til að deyfa svínin í þó nokkur ár og að það hafi alltaf reynst vel. Hann ítrekar að þau séu með mæla og ýmsa tækni sem tryggi það að svínin séu gösuð með sem bestum hætti.
Hann bendir jafnframt á að þau séu undir ströngu eftirliti og ætti Matvælastofnun (MAST) því að vita ef eitthvað fer úrskeiðis. Tveir dýralæknar frá MAST eru viðstaddir í sláturhúsinu öllum stundum við deyfingu.
Sigurður segir þá aðferð að gasa svínin vera enn betri en að notast við rafklemmu. Að hans sögn verða dýrin minna stressuð þegar þau missa meðvitund vegna gassins miðað við þegar þau eru deyfð með rafmagni. Hann segir þetta skila sér í betri gæðum í kjöti.
„Þetta er besta fáanlega tækni sem völ er á í dag. Hún er betri fyrir dýrin og líka kjötgæðalega þar sem stressið er ekki til staðar í dýrunum og þá eru gæði kjötsins svo margfalt meiri en ef væri verið að hleypa raflosti í gegnum dýrið til að deyfa það.“
Spurður hvort Stjörnugrís ætli að skoða nýjar leiðir til að deyfa svínin fyrir blóðgun svarar Sigurður því neitandi og bendir á að engin betri tækni sé til staðar í augnablikinu eftir því sem hann best veit.