Tæplega fjórfalt fleiri í íslenskunámi

Edda - hús íslenskunnar. Einnig nefnt Hús íslenskra fræða.
Edda - hús íslenskunnar. Einnig nefnt Hús íslenskra fræða. mbl.is/Árni Sæberg

Fjöldi umsókna um grunnám í íslensku hjá HÍ nærri því fjórfaldaðist á milli ára. Auk þess er íslenska sem annað mál enn vinsælasta greinin en þar fjölgaði umsóknum um þriðjung. Alls fjölgaði umsóknum í HÍ um 6% á milli ára.

Háskóla Íslands bárust um 9.500 umsóknir um nám fyrir næsta skólaár, 6% fleiri en í fyrra, en þá voru rúmlega 8.850 sem sóttu um nám í HÍ. Erlendar umsóknir voru um 2.000 talsins. Til samanburðar voru þær um þúsund talsins árið 2016.

Jón Atli Benediktsson rektor telur að meginástæðurnar fyrir þessari fjölgun séu tvær. Annars vegar að í fyrra hafi fækkað talsvert mikið í umsóknum og hins vegar að háskólinn hafi farið í mikla herferð til þess að auglýsa háskólanám. Rektorinn segir að í þeirri herferð hafi það komið í ljós að það væru færri sem eru háskólamenntaðir á Íslandi í samanburði við önnur norðurlönd.

Jón Atli Benediktsson rektor HÍ.
Jón Atli Benediktsson rektor HÍ.

Kynningarátak, Edda og máltækni valdi aukinni eftirsókn

„Það er vel hlúð að íslenskunni og tungumálunum hér í Háskóla Íslands og við erum að blása til sóknar,“ segir Jón Atli en um ellefu manns hófu íslenskunám við háskólann seinasta haust en komandi haust munu um 40 manns hefja íslenskunám við skólann.

Ásta Kristín Benediktsdóttir, lektor á íslensku- og menningardeild HÍ, vill meina að að það sé ekki um beina fjölgun að ræða. „Seinasta ár var undantekning en ég hugsa að þetta sé í meðallagi núna,“ segir Ásta við mbl.is en kveðst hún hins vegar ekki vita hvers vegna svona fáar umsóknir hafi borist í fyrra.

Ásta Kristín Benediktsdóttir lektor
Ásta Kristín Benediktsdóttir lektor mbl.is/Arnþór

Ásta segir að skólinn hafi ráðist í sérstakt kynningarátak innan greinarinnar í framhaldsskólum og víðar til þess að auka eftirsókn í námið. Hún telur einnig að Edda, hús íslenskunnar, sem var nýlega vígt, hafi haft einhver áhrif á umsóknir.

Aðspurður segist Jón Atli telja að mikil umræða um íslenska máltækni hafi einnig haft einhver áhrif á umsóknir í Íslenskunám. „Máltæknin kemur þarna tvímælalaust inn,“ segir hann.

Íslenska sem annað mál trónir enn á toppnum

Íslenska sem annað mál er enn og aftur langvinsælasta greinin í háskólanum í ár en þar bárust um 640 umsóknir, um 36% fjölgun frá því í fyrra en þá bárust 470 umsóknir í greinina.

„Háskóli íslands er höfuðvígi kennslu á íslensku á Íslandi. Þetta er samfélagslegt hlutverk okkar að hlúa að kennslu fyrir þá sem hafa ekki íslensku sem móðurmál og við tökum þessu fagnandi,“ segir Jón.

13% fleiri karlar sóttu um

Morgunblaðið greindi frá því í gær að karlkyns umsækjendum í HÍ fjölgaði um 13% á milli ára.

„Körlum er að fjölga talsvert en það eru enn mun fleiri konur en karlar í skólanum. Það var áður einn þriðji á móti tveimur þriðju en þetta er aðeins að lagast,“ segir Jón Atli og bætir við að fleiri karlar séu að sækja um kennaranám en enn séu fáir karlar sem sækjast eftir hjúkrunarfræði. „Breytingin núna er jákvæð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert