„Við erum búin að reima á okkur skóna“

Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunar, segir umgjörð um viðskiptahætti ekki til …
Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunar, segir umgjörð um viðskiptahætti ekki til fyrirmyndar. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

„Við höfum verið að undirbúa okkur,“ segir Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri krónunnar, aðspurð hvort Krónan hafi íhugað að hefja sölu á áfengi í vefverslunum en Costco hóf í gær sölu á áfengi í gegn um „smelltu og sæktu“ þjónustu.

„Við erum tilbúin og við erum með mjög góða innviði til að styðja við svona starfsemi, en höfum hingað til ákveðið að vera ekki á svona gráu svæði,“ segir Guðrún. „En við erum búin að reima á okkur skóna.“

Skortir skýrari löggjöf

„Ástæðan fyrir því er að okkur hefur fundist skorta skýrari löggjöf um sölu áfengis í gegn um innlendar vefverslanir.“

Guðrún telur að núverandi fyrirkomulag standist ekki skoðun og kveðst þykja leitt að lagaumgjörð varðandi sölu áfengis sé með þeim hætti að fyrirtæki þurfi að fara krókaleiðir til að selja áfengi í vefverslunum.

„Þetta er ekki til fyrirmyndar að búa til þannig umgjörð um viðskiptahætti þar sem er hægt að fara svona í kring um hlutina, en þannig er staðan í dag,“ segir Guðrún og segir það skapa ákveðið ójafnvægi að áfengissala í gegn um erlend fyrirtæki sé lögleg, en lagaramminn varðandi sölu innlendra fyrirtækja sé óskýr.

„Okkur hefur fundist það þurfa að vera skýrt,“ segir Guðrún, en bætir við að það sé áhugavert að dómsmálaráðherra, Jón Gunnarsson, hafi látið þau ummæli falla að hann álykti að sala áfengis í vefverslun sé lögleg.

Tímabær umræða

Hún segir málið ferskt og því erfitt að tjá sig um hver framtíðin verði, en að hún telji spurninguna ekki lengur vera hvort heldur hvenær fyrirtækið geti hafið sölu áfengis í vefverslun. 

„Það er greinilega eftirspurn eftir svona þjónustu og það er ekki gott að það sé búin til svona umgjörð þar sem fólk getur unnið á gráu svæði,“ segir Guðrún og bætir við „Það vilja allir bara hafa þetta skýrt og vita að þeir séu að fara eftir þeim reglum sem eru í gildi.“

Hún kveðst telja umræðuna tímabæra og sýna fram á að sala áfengis í vefverslunum sé gerleg og auki fjölbreytni og samkeppnishæfni á markaðinum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert