Fá styrk til brottfarar frá Íslandi

Í nýrri reglugerð um fjárhagslega aðstoð við umsækjendur um alþjóðlega vernd sem dómsmálaráðherra hefur undirritað og kynnt er á vef ráðuneytisins, er gefin heimild til að greiða flugfargjöld viðkomandi til brottfarar frá Íslandi, einnig ferðastyrk og/eða enduraðlögunarstyrk.

Þetta á við um þá umsækjendur um alþjóðlega vernd sem dregið hafa umsókn sína til baka, hefur verið synjað um vernd eða fengið synjun á efnislegri meðferð umsóknar sinnar og fallist sjálfviljugir á brottflutning.

Slík aðstoð við sjálfviljuga heimferð getur verið í samstarfi við alþjóðastofnun. Þó eiga þeir útlendingar sem koma frá ríkjum sem eru á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki eða fá aðstoð við heimför til ríkja sem eru á þeim lista, ekki rétt á enduraðlögunarstyrk.

Enduraðlögunarstyrkur 1.000 til 3.000 evrur

Með greiðslu flugfargjalda er átt við greiðslu flugmiða frá Íslandi til heima- eða viðtökuríkis, en með ferðastyrk er átt við reiðufé sem ætlað er til kaupa á nauðsynjum meðan á ferðalagi stendur. Þannig eiga fullorðnir og fylgdarlaus börn rétt á 200 evra styrk, en börn í fylgd fullorðins 100 evrum.

Enduraðlögunarstyrkur er ætlaður til að stuðla að aðlögun viðkomandi í því ríki sem hann er fluttur til og getur sá styrkur numið frá 1.000 til 3.000 evrum og verður sá styrkur greiddur út í viðkomandi ríki.  Styrkurinn á að nýtast til greiðslu kostnaðar við húsaleigu, nám, atvinnu eða önnur verkefni í samstarfi við alþjóðastofnun.

Gera ráð fyrir töluverðum sparnaði

Á vef dómsmálaráðuneytisins kemur einnig fram að yfirvöld hafi um árabil greitt fyrir heimför með fjárhagsaðstoð til þess að styðja við sjálfviljuga heimför þeirra útlendinga sem fengið hafa synjun  umsóknar um alþjóðlega vernd.

Hinni nýju reglugerð um fjárhagsaðstoð við sjálfviljuga heimför er ætlað að skapa aukinn fjárhagslegan hvata fyrir útlendinga til að hlíta endanlegri niðurstöðu stjórnvalda um að yfirgefa landið, enda teljist viðkomandi vera hér í ólöglegri dvöl.

Þess er vænst með þessum nýju reglum að flutningum í fylgd lögreglu muni fækka, en þeim fjölga sem kjósa að fara af landi brott sjálfviljugir. Gert er ráð fyrir að þetta leiði af sér töluverðan sparnað fyrir ríkissjóð enda flutningar í fylgd lögreglu kostnaðarsamir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert