„Getum ekki setið á hliðarlínunni endalaust“

Gunnar Egill Sigurðsson segir Samkaup ekki geta setið á hliðarlínunni.
Gunnar Egill Sigurðsson segir Samkaup ekki geta setið á hliðarlínunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nettó hyggst ganga í hóp verslana sem bjóða áfengi til sölu í gegnum netverslanir sínar. Þetta staðfestir Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa, í samtali við mbl.is. Neytendur mega gera ráð fyrir því að geta nýtt þessa þjónustu eftir sumarið. 

Costco hóf sölu áfeng­is til ein­stak­linga í net­sölu á þriðjudaginn og Sig­urður Reyn­alds­son, fram­kvæmda­stjóri Hag­kaups, hefur sagt að ekki sé ólík­legt að áfeng­is­versl­un opni í net­versl­un búðarinnar.

„Við erum búin að undirbúa þetta í langan tíma og erum með alla innviði klára,“ segir Gunnar og bætir við að þegar sé búið að ræða við vínbirgja. 

Hann vonast til að þessi viðbót í netverslunina komi eftir sumarið.

„Við erum með allt klárt okkar megin og erum bara að vinna í útfærslunni núna. Vonandi geta neytendur nýtt sér þessa þjónustu eftir sumarið.“ 

Þurfa að fara fjallabaksleið

Og er það burtséð frá þessu áfengisfrumvarpi?

„Já, mér sýnist þetta allt vera að molna innan frá. Það eru komnir þrír-fjórir aðilar inn á þennan samkeppnismarkað og þá getum við ekki setið á hliðarlínunni endalaust. Við þurfum að fara þessa fjallabaksleið sem allir eru að fara. Það var auðvitað ekki okkar fyrsti kostur.“

Hann segir þetta vera eðlilega þróun og að samkeppnisstaða íslenskra fyrirtæki hafi verið skökk um árabil. 

„Mér finnst þetta eðlileg þróun. Netverslun með áfengi hefur verið til staðar á Íslandi í mörg ár og það er náttúrlega skökk samkeppnisstaða að leyfa erlendum aðilum að selja en ekki innlendum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert