Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir að samstarf á borð við sameiginlegu viðbragðssveitina sé mikilvægur liður í að tryggja skjót viðbrögð ef öryggi og vörnum Íslendinga verði ógnað.
Sameiginlega viðbragðssveitin, eða JEF (e. Joint Expeditionary Force), er með færanlega herstjórnarmiðstöð á öryggissvæðinu í Reykjanesbæ í æfingaskyni. 250 manns taka þátt í verkefninu, sem stendur yfir út júnímánuð.
„Þátttaka okkar í JEF er mikilvæg viðbót við þá heildarhugsun í öryggis- og varnarmálum sem hefur verið að þróast í breyttri heimsmynd. Það skiptir máli fyrir Ísland að taka virkan þátt í samstarfi sem við erum aðilar að. Þetta gefur góð skilaboð og felur í sér raunverulegan undirbúning sem getur skipt máli fyrir varnir Íslands á hættutímum," segir Þórdís Kolbrún í samtali við mbl.is.
Hún segir þó að tvíhliða varnarsamningur Íslands við Bandaríkin og aðild að Atlantshafsbandalaginu séu grunnstoðirnar í að tryggja öryggi Íslands.
„Stoðirnar okkar í öryggis- og varnarmálum eru auðvitað tryggðar í gegnum tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin og aðild okkar að NATO. Í því felst okkar helsti fælingarmáttur og tryggasta varnargetan. Öll aðildarríki JEF, að undanskildu Svíþjóð í bili, eru í NATO. Þessar þjóðir standa allar mjög nærri okkur í öllum skilningi,“ greinir hún frá.
Hershöfðinginn Jim Morris, sem er yfirmaður sameiginlegu viðbragðssveitarinnar, tók í sama streng í samtali við mbl.is fyrir viku. „Við erum ekki með her og munum aldrei koma í stað NATO. Hlutverk okkar er í raun að leysa öryggisógnir áður en til stríðs kemur.“
Þórdís Kolbrún bætir við um sameinuðu viðbragðssveitina: „Svæðisbundið samstarf á borð við JEF er vettvangur fyrir skipulag og samhæfingu varðandi ýmsar aðgerðir, þar á meðal skjót viðbrögð ef eitthvað myndi gerast í öryggis- og varnarmálum.“