Orkumálastjóri segir að nú þurfi að greina þau atriði sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir standa eftir. Hún segir nýmæli í úrskurðinum koma til með að hafa víðtæk áhrif innan stjórnsýslunnar.
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi úr gildi virkjunarleyfi Landsvirkjunar fyrir Hvammsvirkjun, en leyfið var gefið út í lok síðasta ár. Úrskurðurinn byggðist á fjölda kæra sem nefndinni bárust og í honum er tekin afstaða til þeirra.
Halla Hrund Logadóttir er orkumálastjóri hjá Orkustofnun og segir málsmeðferðartíma undirbúningsins og ítarleika úrskurðarins sýna hversu flókið og viðamikið málið sé. Taka þurfi til margra þátta í ferlinu sjálfu.
„Heilt yfir sjáum við í úrskurðinum að stærstum hluta rannsóknarhliðarinnar er lokið, enda höfum við lagt gríðarlega mikla vinnu í málið hjá Orkustofnun, en nú tekur við að greina þau atriði sem kærunefndin sér að standa eftir, það er verkefnið fram undan,“ að sögn Höllu.
Halla segir nýmæli í úrskurðinum koma til með að hafa víðtæk áhrif innan stjórnsýslunnar. Í raun og veru snúist þetta að mestu leyti um stjórn vatnamála, en farið hefur verið eftir núgildandi vatnaáætlun sem kærunefndin bendir á að sé ekki fullnægjandi og kallar, með úrskurðinum, eftir að verði bætt og ferli tengd henni sömuleiðis að sögn Höllu.
Það er gríðarlega mikilvægt að fá áætlun frá úrskurðarnefndinni að sögn Höllu, enda margt sem úrskurðurinn skýrir.
„Þarna eru útistandandi mál sem snúa að því að hafa vatnaáætlun fullnægjandi. Við fögnum því og munum leggja vinnu í það með öðrum stjórnvöldum, að gera úrbætur, þannig að hægt sé að tryggja að það sé verið að nýta vatnsauðlindina, í þessu tilfelli í gegnum orkunýtingu, með sem sjálfbærasta hætti.
Það er markmiðið, það er það sem er verið að leggja áherslu á og það er það sem að skiptir máli þegar við erum að horfa til auðlindanýtingar, að hún sé sjálfbær, ekki bara til skemmri tíma litið heldur líka til lengri tíma,“ sagði Halla
Hvaða önnur stjórnvöld eru það?
„Það er Umhverfisstofnun, samtöl við ráðuneyti og fleiri aðila, það er hluturinn sem við erum að greina núna.“
Þetta er fyrsta stóra vatnsfallsvirkjunin frá því að vatnaáætlun var samþykkt. Umhverfisstofnun fer með stjórn vatnamála og í samvinnu við hana þarf að bæta úr þessum málum og skerpa á ferlum.
Hvað er það helst sem þarf að útfæra í vatnaáætluninni?
„Í stuttu máli snýst þetta um gæði vatns fyrir og eftir framkvæmdir og vatnaáætlun þarf að þróa meðal annars fyrir ólíkar tegundir vatns. Þetta er það sem við erum að skoða núna, enda er þetta ekki eitthvað sem hefur reynt á með sama hætti.
Áætlunin er ekki fullnægjandi, við erum að fara eftir núgildandi áætlun, en úrskurðarnefndin bendir á að í ljósi þess að hún sé ekki fullnægjandi þurfi að ganga lengra í þróun hennar og leita leiðbeininga til umhverfisstofnunar.
Það er mikilvægt fyrir stjórnsýsluna að skýra svona þætti af því að þetta skiptir máli ekki bara í þessu tilfelli heldur í miklu breiðari samhengi, því vatnaáætlun nær yfir svo margt annað líka,“ sagði Halla. Í því ferli verður lögð áhersla á að tryggja að nýtingin sé sjálfbær og að löggjöfin stuðli að því.
Hvað varðar leyfisumsóknina þá er umsóknin enn í gildi en taka þarf á tilmælum úrskurðanefndarinn og sömuleiðis þarf leyfisumsækjandi sem er Landsvirkjun að taka ákvörðun um næstu skref.