Skálmöld fær styrk upp á 700 þúsund krónur

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, og styrkhafar í anddyri …
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, og styrkhafar í anddyri Safnahússins. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Íslenska þungarokkshljómsveitin Skálmöld er í hópi þeirra sem hljóta styrk úr Hljóðritasjóði fyrir verkefni sem nefnist Ýdalir. Hljóðritasjóður veitir styrki til hljóðritunar á nýrri og frumsaminni tónlist. Einstaklingar, hljómsveitir, útgáfufyrirtæki og aðrir sem koma að hljóðritun tónlistar geta sótt um.

Í tilkynningu frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu kemur fram að styrkjum hafi verið úthlutað úr Hljóðritasjóði og Tónlistarsjóði. Úthlutunarathöfnin fór fram í Safnahúsinu í dag.

Í þessari fyrri úthlutun úr hljóðritasjóði fyrir árið 2023 eru veittar 19 milljónir til 60 verkefna en umsóknir voru alls 204 talsins. Styrkupphæðir eru á bilinu 150 til 800 þúsund krónur og hæstu styrki hljóta Hærra ehf., sem fær 800.000 krónur, og Skálmöld, sem fær 700.000 krónur. 27 styrkir fara til ýmiss konar rokk-, hipp-hopp- og poppverkefna, 13 styrkir til samtímatónlistar af ýmsum toga, 7 styrkir til fjölbreyttra djassverkefna og 13 styrkir til ýmissa annars konar tónlistarverkefna.

Alda Music ehf. hlýtur einnig tvo styrki: annars vegar upp á 350.000 kr. styrk vegna breiðskífu söngkonunnar Elínar Hall og hins vegar upp á 250.000 kr. vegna breiðskífu hljómsveitarinnar Supersport.

Óperan í mikilli sókn

Í dag fór einnig fram seinni úthlutun úr Tónlistarsjóði fyrir árið 2023. Alls bárust 207 umsóknir og sótt var um 234 milljónir. Til úthlutunar voru hins vegar aðeins 38 m.kr. og eru 65 verkefni styrkt að þessu sinni. Hæstu styrki fá Sinfóníuhljómsveit Suðurlands og Pera Óperukollektíf, 2.000.000 hvor.

Sex styrkhafar fá eina milljón hver og eru þeir Lunga, Múlinn jazzklúbbur, Þjóðlagahátíðin á Siglufirði, Þórunn Guðmundsdóttir fyrir ævintýraóperur sínar, Tónlistarhátíðin Erkitíð og Íslenska Schumannfélagið fyrir tónlistarhátíðina Seiglu.

Alls hljóta sjö verkefni tengd óperum styrki auk Óperudaga. Þar af eru fjögur verkefni sem flutt verða undir merkjum þeirrar hátíðar. Í tilkynningunni segir að þetta endurspegli þann fjölda umsókna varðandi verkefni tengd óperuforminu „sem virðist vera í mikilli sókn“.

Finna má lista yfir styrkþega inni á vef Stjórnarráðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert