„Hugur minn stefndi alltaf á læknisfræðina, ég veit nú ekki hvernig stendur á því, ekki mikið um lækna í ættinni,“ segir Daði Þór Vilhjálmsson, yfirlæknir krabbameinsskurðdeildar Háskólasjúkrahússins í Malmö í Svíþjóð, í samtali við Morgunblaðið, og hlær hæversklega en Daði hefur verið búsettur í Svíþjóð um langt árabil eins og fleiri læknar íslenskir.
Þótt þessi áður rótgróni Kópavogsbúi og knattspyrnumaður þar í bænum sinni einkum krabbameinsskurðlækningum eftir langt og strangt nám snýst stór hluti starfa Daða um að tjasla íbúum hins róstusama sænska bæjarfélags Málmeyjar saman eftir gegndarlausar skot- og hnífstunguárásir sem hann kveður verða æ grófari auk þess sem misindismenn bæjarins aðlagi skotárásir sínar læknavísindunum með óhugnanlegum hraða en í Malmö hefur nánast látlaus vargöld ríkt árum saman er klíkur innflytjenda og fíkniefnasala berast þar á banaspjót. Meira um það síðar í viðtalinu en við byrjum á bakgrunni Daða sem er sonur Vilhjálms Þórs Vilhjálmssonar heitins, hins góðkunna Villa rakara.
Daði varð stúdent úr Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1993 og hélt þá rakleiðis í læknadeildina. „Ég kynntist þá konunni minni sem var í hjúkrunarfræði á þeim tíma og fljótlega upp úr því kemur dóttir mín undir og fæðist þegar ég er að byrja á fjórða árinu í læknisfræðinni,“ segir Daði frá og rifjar upp erfiða en eftirminnilega tíma.
„Við hittumst nánast bara á vaktaskiptum, konan mín var þá útskrifuð og komin út á vinnumarkaðinn og ég var að vinna á Landspítalanum sem læknanemi. Þetta voru helgarvaktir og næturvaktir og allur pakkinn,“ segir Daði en játar þó aðspurður að vissulega sé þessi tími nú skemmtilegur í höll minninganna. Þannig er það nú oft.
Læknanámið átti þó ekki allan hug Daða á þessum tíma. Til þess var hann einfaldlega allt of blankur. „Ég var ráðinn efnafræðikennari í FB, ég þurfti bara aukapening fyrir fjölskylduna. Sótti reyndar um í MR en þar sögðu fyrrverandi kennarar mínir mér að því miður væri engin staða laus. Svo ég réð mig í FB á haustmisseri og þekkti ekkert inn á þetta fjölbrautakerfi. Ég var eiginlega yngsti kennarinn þarna og líka yngri en margir sem ég var að kenna,“ segir Daði sem komst fljótlega á sagnaspjöld Fjölbrautaskólans í Breiðholti fyrir framúrstefnulegar kennsluaðferðir sínar.
„Ég sá fljótlega að áhugi fólks á Efnafræði-101 var mismikill og ég man að ég kom heim og var endalaust að velta því fyrir mér hvernig ég ætti að vekja áhuga rúmlega hundrað manns á efnafræði, ég var að kenna í risastórum sal þarna,“ segir Daði og greip því til sinna ráða.
„Ég talaði þá við allan bekkinn og bað þá að rétta upp hönd sem væru hérna bara vegna þess að þeir yrðu að taka þennan áfanga í skyldu. Það var náttúrulega meirihlutinn. Færri réttu upp hönd þegar ég spurði hverjir ætluðu á náttúrufræðibraut og þar með í meiri efnafræði. Þá sagði ég við allan bekkinn að ég ætlaðist til þess að þeir sem væru á náttúrufræði- og stærðfræðibrautum mættu í alla tíma og ég myndi kenna þeim upp á tíu. Hinum myndi ég leyfa að sleppa helmingi tímanna en merkja við að þeir hefðu mætt, þeim skyldi ég kenna upp á sex í einkunn,“ segir Daði sposkur og leynir sér ekki að læknirinn er mikill frásagnamaður.
Leið svo að veturnóttum og jólaprófum en Daði fór ekki yfir jólaprófin, það gerði deildarstjóri í efnafræði. Í byrjun janúar barst Daða hins vegar símtal og reyndist þar skólameistari á hinum endanum. Fýsti hann að hitta Daða og spyrja nokkurra spurninga.
„Mér leist nú ekkert á þetta og grunaði um hvað málið snerist. Svo kem ég á þennan fund og þá situr deildarstjórinn í efnafræði inni á skrifstofu skólameistara. Þarna bjóst ég við einhverri vægri grillun um mínar kennsluaðferðir, óttaðist helst að eitthvað hefði spurst út. Eftir vanalegt kurteisishjal spurði deildarstjórinn mig svo: „Segðu mér Daði, hvernig kenndir þú í vetur?“ Þarna fór ég að verða stressaður og þorði ekki að játa allt strax, reyndi að fiska aðeins meiri upplýsingar áður en ég opnaði mig alveg,“ segir læknirinn og hlær yfir hafið frá Svíþjóð.
Deildarstjórinn varð hins vegar fyrstur til að leggja spilin á borðið að sögn Daða. „Ja, ég vildi nú bara spyrja þig vegna þess að þetta er í fyrsta sinn í sögu skólans sem allir nemendur ná prófi í Efnafræði-101,“ sagði sá góði maður.
Játaði Daði þá kennsluaðferðir sínar sem mæltust vel fyrir á fundinum og var honum boðin áframhaldandi staða við FB. Er þarna var komið sögu hafði þáverandi rektor Menntaskólans í Reykjavík, Yngvi Pétursson, hins vegar hringt í Daða og boðið honum kennarastöðu sem gamall nemandi þáði og hvarf þangað til kennslu.
Varð Daði fljótt vinsæll efnafræðikennari og rann þegar til rifja er hann heyrði að nemendur hans ættu í vandræðum með stærðfræðina í 3. bekk í MR en sá sem hér skrifar var bekkjarbróðir Daða í 3.G veturinn 1989 til 1990 og getur vottað að sú stærðfræði sem þar var lögð á saklausa nemendur, rúmfræði Evklíðs, var op niður til helvítis og alls ekki fyrir venjulegt fólk.
Slík aumur sá Daði á nemendum sínum að hann bauð þeim heim til sín í örsmáa leiguíbúð við Barónsstíg þar sem hann leigði ásamt Ólafi Eiríkssyni, nú þekktum lögmanni, og sagði örvæntingarfullum nemendum til í rúmfræði Evklíðs þrátt fyrir að ekkert stæði þeim rúmið til boða.
„Bekkurinn kom með töflu og penna og allt saman og við fórum þarna yfir stærðfræðina,“ rifjar Daði upp. Fljótlega vatt kennslan upp á sig, hann var farinn að kenna 4. bekk í MR og svo boðið að kenna 5. bekk en þar var komið að þolmörkum enda 95 prósent mætingarskylda á fjórða ári í læknisfræði.
Áður hafði Daði þurft að sækja um ársleyfi frá læknanámi til að afla sér tekna þar sem hann átti ekki fyrir húsaleigu. „Og það var ekkert smámál, forseti læknadeildar þurfti að samþykkja umsóknina og ég þurfti að skrá mig úr öllum prófum,“ rifjar Daði upp, „svo ég kynntist tveimur bekkjum í læknisfræðinni og krakkarnir sem ég útskrifaðist með árið 2001 voru alltaf að grínast með það á sjötta árinu að ég hefði verið fyrsti læknaneminn sem útskrifaðist utanskóla,“ segir Daði og hlær, en námsárangur hans í læknadeildinni var þó með æðsta láði.
Eftir útskrift Daða tóku örlögin í taumana – reyndar í formi konu hans, Elvu Bjargar Jónasdóttur, borins og barnfædds Akureyrings. „Hún óskaði mjög eindregið eftir því að ég tæki kandídatsárið mitt á Akureyri svo ég fór þangað með þremur eða fjórum bekkjarsystkinum mínum, ekki þó af því að hún heimtaði að þau kæmu líka,“ segir Daði og hlær innilega.
Kandídatsárið tók hann því við það sem þá hét Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og lætur vel af dvölinni norðan heiða. „Þar vissu menn að mig langaði í skurðlækningar og mér var boðin áframhaldandi staða þar. Kerfið á Íslandi er þannig að gert er ráð fyrir að maður taki fyrstu tvö árin í sérnámi á Íslandi, almennar skurðlækningar eru sex ár og ég tók fyrstu tvö árin fyrir norðan,“ segir Daði.
Námsdvölin kostaði þó hrókeringar og þurfti að búa til sérstaka stöðu fyrir Daða á Fjórðungsskjúkrahúsinu. „Það er svokölluð deildarlæknisstaða og hún er til enn þann dag í dag og þetta reyndist mér mjög vel þegar ég hélt til Svíþjóðar og hóf störf á Läns-sjúkrahúsinu í Halmstad. Þá var maður búinn að fá töluverða reynslu þegar maður kom þangað og byrjaði. Kerfið virkar þannig að maður kemst ekkert í sérnám erlendis nema maður hafi sérfræðinga á bak við sig sem veita meðmæli svo sjúkrahúsin úti viti að maður sé álitlegur,“ segir Daði frá.
Íslenskir sérfræðinemar erlendis hafi hins vegar getið sér slíkan orðstír að þeir séu þegar á vissum stalli í samanburði við nema ýmissa annarra þjóðerna. „Þannig að maður fetaði í fótspor þeirra sem á undan gengu,“ segir Daði sem nam við sjúkrahúsið í Halmstad árin 2004 til 2009 og varð sérfræðingur í almennum skurðlækningum 2008.
„Til þess að verða sérfræðingur í Svíþjóð þurfa tveir sérfræðingar að mæla með þér við sænska heilbrigðisráðuneytið, yfirmaður þinn og leiðbeinandi þinn. Og ég man þegar ég sat með þeim á þessum fundi að ég sagði „guð minn góður, er ég allt í einu orðinn sérfræðingur, ég upplifi mig ekki sem sérfræðing, þetta hefur gerst svo hratt allt“. Þá sneru þeir sér hvor að öðrum áður en yfirmaðurinn leit á mig og sagði við mig: „Það er einmitt þess vegna sem þú ert orðinn sérfræðingur.“,“ segir Daði frá og röddin ljómar yfir minningunni.
Yfirmaðurinn sem þarna er getið átti eftir að hafa mun dýpri áhrif á líf og framtíð Daða Þórs Vilhjálmssonar því ekki löngu síðar boðaði hann íslenska sérfræðinginn nýbakaða á sinn fund og kvaðst vera að hætta á sjúkrahúsinu í Halmstad, hann væri að taka við stöðu á Háskólasjúkrahúsinu í Malmö.
„Ég sagði honum náttúrulega að mér þætti þetta leitt og bjó mig undir kveðjustundina þegar hann sagði: „Nei nei, Daði minn, þú ert að koma með mér. Talaðu bara við konuna þína, það er bara kominn tími á það að þú farir að róa á mið háskólasjúkrahúsa til að auka við þekkingu þína.“,“ rifjar Daði upp af þessu örlagaríka samtali.
Reyndist yfirmaðurinn þá þegar hafa rætt við stjórnendur í Malmö og Daði var kominn með grænt ljós. Leiðin greið. Þetta var í lok árs 2009 og tók þá við verulega knýjandi ár í lífi Daða sem vildi ekki flytja fjölskyldu sína enn einu sinni milli staða.
„Svo ég keyrði á milli, 130 kílómetra hvora leið, á pínulitlum Suzuki Swift sem var svo sparneytinn að hann nánast framleiddi bensín,“ segir Daði glettnislega og rifjar upp enn ein stórtíðindin í fjölskyldunni, þegar Elva varð ólétt öðru sinni og þau voru enn á Akureyri.
„Hún átti að fara í fyrsta sónarinn og ég gat ekki verið með vegna vinnu, en sónarinn var náttúrulega á sjúkrahúsinu. Ég bað hana þess vegna bara að hringja í mig þegar hún vissi hvernig þetta liti út og svo allt í einu fæ ég símtal frá fæðingarlækninum sem ég þekkti vel. Hann biður mig að koma, ég var þá einmitt á milli aðgerða og leist ekki á blikuna. Þegar ég kem inn í skoðunarherbergið setur hann ómtækið í gang og spyr mig hvað ég sjái hér og ég svara auðvitað að það sé verðandi barn mitt. Þá færir hann ómhausinn og spyr hvað ég sjái nú hér og þar varð ég að svara því að ég sæi annað barn mitt á leiðinni,“ segir læknirinn sem þar með fékk að vita að hann ætti von á eineggja tvíburum, drengjum, í viðbót við frumburðinn og því kannski töluvert maus að rífa allan hópinn upp með rótum bara þegar ný vinna kallar.
„Auðvitað lenti allt stúss með börnin á Elvu, ég var á þrískiptum sólarhringsvöktum og var á Fjórðungssjúkrahúsinu og seinna meir á Lénssjúkrahúsinu þriðja hvern sólarhring svo þetta var mjög erfiður tími,“ segir Daði en Elva er svæfingarhjúkrunarfræðingur, „svo þetta nýttist henni auðvitað líka, hún var ekki bara að fylgja mér eins og makar lækna lenda alltaf í þegar þeir yfirgefa landið“, segir Daði og hlær skelmislega.
Í Malmö tók nýr veruleiki við. Að sögn Daða lenda nýir sérfræðingar almennt neðarlega í goggunarröðinni á háskólasjúkrahúsum en hann þakkar yfirmanninum gamla frá Halmstad að hann komst nánast beint í innsta hring. „Þá er ég settur upp sem aðalskurðlæknir í krabbameinsaðgerð fyrsta daginn sem ég starfaði þarna og hann var með mér í aðgerðinni svo ég sæi eitthvert kunnulegt andlit svo ég get ekki sagt annað en að allt hafi verið gert fyrir mig hér í Svíþjóð,“ segir Daði.
Í upphafi héldu þau út tvær fjölskyldur, Daði og hans fjölskylda og Hjálmar Þorsteinsson bæklunarskurðlæknir með sinni, og settust að í Halmstad eða þar rétt fyrir utan. „Við fluttum í sama smábæinn og vissum það ekki þá en þessi bær var nú ekki talinn það fínasta í landinu. Ég gleymi því aldrei þegar ég flutti út, þá talaði ég ensku fyrst þar sem ég kunni ekki sænsku. Yfirmaður minn tjáði mér þá að ég mætti tala ensku fyrstu fjórar vikurnar en eftir það skyldi ég tala sænsku eða alla vega einhverja skandinavísku, hann sagðist vita til þess að Íslendingar næðu Norðurlandamálunum fljótt,“ rifjar Daði upp af þessum afarkostum.
Varð hann þess þó fljótt var að samstarfsfólkið hafði skoðun á því hvar hann bjó, í Oskarström, skammt frá Halmstad. „Ég man að fólk spurði mig hvar ég byggi og þegar ég sagði frá því litu menn hver á annan og sögðu bara „já ókei“ og ég vissi alveg hvað það þýddi,“ segir Daði.
Samstarfsmaður á Akureyri hafði aukinheldur sagt Daða að hann þyrfti bara að kunna örfá orð í sænsku, strjúka hökuna spekingslega og segja þau, þar á meðal „precis“, sem mætti þýða sem einmitt, og „Systembolaget“ sem er sænska áfengissalan.
Rifjar Daði upp þegar fimm ára dóttir þeirra Elvu hafði drukkið sum þessara orða í sig og þau hjónin voru stödd í banka að sækja um húsnæðislán. Þá tók dóttirin að syngja fullum hálsi „Systembolaget, Systembolaget“ upp úr eins manns hljóði. „Og lánafulltrúinn leit fyrst á okkur og svo á hana og augljóst að honum leist ekkert á blikuna. En við fengum nú lánið að lokum,“ segir Daði kankvís.
Daði er nú um stundir sérfræðingur í mjög sérhæfðum krabbameinsaðgerðum sem Háskólasjúkrahúsið í Malmö sinnir og er eitt af stærstu sjúkrahúsum Svíþjóðar sem sinna slíkum aðgerðum. Skálmöldin í Svíþjóð er hins vegar alþekkt, þar er fólk skotið til bana tugum saman ár hvert í væringum innflytjenda og fíkniefnasala. Þetta hlýtur að hafa sín áhrif.
„Já, hér hefur sum árin verið styrjöld milli gengja og við fáum reglulega skotáverka og stunguáverka,“ svarar Daði, „ég sá nýlega graf þar sem farið var yfir skotáverka í Evrópu og á tímabili var Malmö þar með langflesta slíka áverka miðað við höfðatölu og ég hef framkvæmt haug af aðgerðum vegna skot- og stunguárása. Þegar maður er á vöktum sinnir maður öllu, þá fær maður allan prófílinn,“ segir yfirlæknirinn.
Þannig að þið fjarlægið byssukúlur úr fólki og allt saman?
„Já, við gerum það og lögum þau líffæri sem hafa skaðast. Við erum með mjög öfluga bráðamóttöku þar sem allir þekkja sín hlutverk og við förum jafnt í brjóst- og kviðarhol á fólki þótt hjarta- og lungnaskurðdeildin sé í Lundi. Á tímabili var það orðið þannig að við vorum orðin svo vön skotárásum á brjóstkassa að þegar einhver var skotinn í smábæjum nærri Lundi komu sjúkrabílarnir oftast til okkar frekar en að fara með þá á sjúkrahúsið í Lundi. Þetta hefur nú breyst núna reyndar, núna sinnir Lundur þessu alveg eins og við, en við í Malmö erum með mjög stórt upptökusvæði,“ svarar læknirinn.
Hvernig gengur fólki að ná sér eftir skotáverka, eru þeir ekki með alvarlegustu áverkum?
„Jú, þetta eru alvarlegir áverkar og ég hef séð mikla þróun í þeim síðan ég kom hingað. Oft er verið að vara fólk við og þá er fólk skotið í útlimi. Þá gátum við í skurðdeildinni bara labbað út vegna þess að þá tóku bæklunarskurðlæknarnir við,“ svarar þessi sjóaði læknir í Svíþjóð en nefnir um leið annað atriði, ískyggilegt.
„Eftir því sem við verðum flinkari aðlagast þeir sem eru að skjóta fólk. Þeir eru farnir að skjóta meira á svæði sem við eigum erfiðara með að hjálpa fólki með auk þess sem við sjáum meira af niðurlægjandi skotárásum, það er verið að skjóta fólk í endaþarminn eða á svæði þar sem vitað er að fólk fái stómíur [utanáliggjandi hægðalosun], það er verið að limlesta fólk, því er leyft að lifa af en á að minnast þess hvers vegna það var skotið, þetta er þekkt til dæmis í Suður-Afríku líka,“ segir Daði.
Fréttir af ástandinu í Malmö hafa varla farið fram hjá þeim sem almennt fylgjast með fréttum. Blaðamann fýsir að vita hvort almennir borgarar þurfi þar að óttast um öryggi sitt á götum úti. Hvernig metur Daði það?
„Ef þú hefðir spurt mig þessarar spurningar fyrir nokkrum árum hefði ég sagt nei, almennir borgarar þurfa ekki að hafa áhyggjur annað en að það er þungbært að lesa þetta í fjölmiðlum endalaust og heyra þetta úti á götu auk þess hvað þetta kostar heilbrigðiskerfið,“ svarar Daði en kveður öldina aðra nú.
„Síðustu ár hefur orðið mikil breyting. Nú eru skotbardagar að degi til og jafnvel í verslunarmiðstöðvum eins og nýlegt dæmi sýnir þar sem einn var bara tekinn af lífi fyrir framan fjölda fólks í Emporia-verslunarmiðstöðinni, þar á meðal eiginkonu mína sem var þarna að versla. Við höfum fengið til okkar fólk sem hefur verið skotið bara fyrir slysni og annað sem hefur líka vakið athygli mína núna síðasta árið er að við erum að fá inn til okkar ættingja fólks, saklausa ættingja einhvers glæpamanns í einhverri klíku þar sem hin klíkan er að hefna sín með því að myrða eða limlesta fjölskylduna, það er orðið mun meira áberandi í dag,“ segir yfirlæknirinn hláturmildi sem nú er þó enginn hlátur í huga.
En hvað með framtíðina, hyggjast Daði og fjölskylda búa áfram í Svíþjóð?
„Það er góð spurning. Nú hef ég búið hérna úti í nítján ár og Ísland hefur falast eftir mínum starfskröftum, ég hef auðvitað unnið mér inn mikla reynslu í þessum krabbameinsaðgerðum sem ég hef verið að framkvæma hér,“ svarar Daði og tekur sér í kjölfarið drjúgan umhugsunarfrest. Er skurðlæknirinn ef til vill ekki viss? Hefur fræjum efans þegar verið sáð í vitund hans?
„Ég stjórna núna krabbameinslegudeildinni hérna á sjúkrahúsinu og auðvitað nefni ég það við mitt samstarfsfólk hérna þegar stöður eru auglýstar á Íslandi hvort ég eigi að sækja um eða ekki. En þá fæ ég alltaf sömu svör: Vinsamlegast skildu bara eftir vegabréfið þitt svo þú komist ekki í burtu, þeir hóta handjárnum og vegabréfssviptingu, hvað á ég að gera?“ spyr Daði og skellihlær. Góð spurning.
Talið berst að frændgarðinum. Daði er sonur Villa rakara heitins, Vilhjálms Þórs Vilhjálmssonar, sem líklega hefur rakað fleiri kílómetra af hári af höfðum Íslendinga en nokkur maður fær talið. En hver er móðir hans?
„Móðir mín hét Ásta Lovísa Leifsdóttir en fjölskylda mín er af þessum heilablæðingaættum sem eru þekktar á Íslandi. Þegar ég var tveggja ára gamall fékk mamma fyrsta heilablóðfallið og var komin í hjólastól þegar ég var fimm ára. Hún lifði fyrstu blæðinguna af, þá var hún að vinna við að selja popp og kók í Laugarásbíói. Þá datt hún bara í gólfið,“ segir Daði alvarlegur í bragði yfir örlögum móður sinnar.
Móðir Daða lenti í kjölfarið í fjölda minni heilablæðinga. „Þegar ég var sjö ára þekkti hún okkur systkinin ekki lengur og svo féll hún frá þegar ég var tíu ára. Við fluttum mikið á þessum árum, ég var í fimm grunnskólum í Mosfellssveit, Reykjavík og Kópavogi. Ég endaði í Snælandsskóla sem er besti skóli sem ég hef verið í,“ segir Daði og hefur svo játningar sínar fyrir alvöru.
„Ég var auðvitað bölvaður villingur,“ segir skurðlæknirinn og hlær dátt, „engu að síður var ég góður námsmaður en þurfti hvatningu. Ég var duglegur í fótbolta og hann hélt mér á réttu spori. Við fluttum mikið, ég var var alltaf nýi strákurinn í skólanum og þurfti að sanna mig og það gerði ég gegnum fótboltann,“ segir Daði.
En þú ert Kópavogsbúi í grunninn eða hvað?
„Já já, ég myndi kalla mig austurbæing úr Kópavogi, en nú skal ég segja þér frá nokkru sem breytti mínu lífi,“ segir krabbameinsskurðlæknirinn í Svíþjóð og blaðamaður leggur við hlustir.
„Helgi Helgason, kennari í Snælandsskóla, hann kenndi ensku og var kallaður basli, hann tók mjög fast á mér þegar ég kom í skólann. Hann var auðvitað að reyna að fá mig til að haga mér og lét mig finna fyrir því frammi fyrir bekknum. Þó ekki á neinn neikvæðan hátt, hann náði kannski að laða það besta fram í mér,“ rifjar Daði upp, gamli villingurinn úr Kópavogi sem nú er virtur skurðlæknir í Svíþjóð.
„Þegar ég var á fótboltaæfingum og var að koma heim sat basli stundum heima í stofu og var að tala við pabba um mig. Ég var nú mikil markamaskína þegar ég var í boltanum og basli mætti á marga leikina mína og leiddist svo aldrei að tala um mörkin sem ég hafði skorað í skólanum. Hann á mjög stóran hlut í því að ég fetaði menntaveginn,“ segir Daði og þakklætið ljómar af rödd skurðlæknisins í Svíþjóð. „Hann á mikið í mér í dag,“ bætir hann við.
Í framhaldinu játar Daði að hann hafi í raun aldrei ætlað í MR.
„MR var hverfisskóli þá og ég átti engin systkini eða foreldra sem höfðu nokkurn tímann verið þar,“ segir skurðlæknirinn og má nánast heyra seyrið glott hans gegnum símtalið. „Ég sat í strætóskýli með einkunnaspjaldið mitt í A4-umslagi og strætisvagninn var seinn. Þá stöðvar bifreið fyrir framan mig og rúðan er skrúfuð niður,“ segir Daði sposkur.
Sá sem skrúfaði niður rúðuna var Aðalsteinn Gunnlaugsson, nú krabbameinslæknir í Lundi, en undir stýri sat faðir Aðalsteins, Gunnlaugur heitinn Geirsson, þekktur réttarlæknir.
„Ég var spurður hvert ég væri að fara og segist vera að fara upp í Fjölbrautaskólann í Breiðholti að sækja um en þeir spyrja mig hvort ég vilji ekki bara koma með þeim að sækja um skólavist í MR,“ segir Daði og glottir við tönn yfir minningunni.
Úr varð að hann fylgdi vini sínum niður í MR þar sem Guðni heitinn Guðmundsson rektor tók á móti hersingunni. „Gunnlaugur hafði orð fyrir okkur, sagði að hér væru komnir ungir námssveinar úr Kópavogi sem fýsti mjög að hljóta námsvist við skólann. „Guðni rektor sagði okkur eiginlega bara að drulla okkur inn á skrifstofuna hans og dró svo upp neftóbaksbaukinn. Ég hafði aldrei tekið í nefið áður en þorði ekki annað en að hlýða. Las hann svo yfir okkur að menntaskólinn tæki ekki á móti neinum drullusokkum, við þyrftum að leggja á okkur og læra eins og menn. Svo sagði hann okkur bara að drulla okkur út aftur og örfáum vikum seinna fékk ég bréf um að ég hefði verið tekinn inn í Menntaskólann í Reykjavík og þetta var nú ástæðan fyrir að ég fór í MR,“ segir Daði og skellihlær.
Hann er nú að ljúka doktorsverkefni sínu sem fjallar um nýjar aðferðir við endurtengingu þarma eftir krabbameinsaðgerðir. „Það er mjög langt og spennandi verkefni, ég er farinn að fá símtöl frá Belgíu og Hollandi og Bandaríkjunum þar sem menn eru að biðja mig að koma um og halda fyrirlestra svo það er margt að gerast hjá mér núna. Mér líkar mjög vel hérna í Svíþjóð en eins og ég segi er verið að bera í mig víurnar heiman frá og enginn veit sína ævina fyrr en öll er,“ segir Daði Þór Vilhjálmsson, yfirlæknir á Háskólasjúkrahúsinu í Malmö, við lok fróðlegs spjalls um ævi hans og störf. Þar setjum við lokapunktinn að þessu sinni.