Þrjú verkefni eru talin mjög brýn í tillögu Vegagerðarinnar að jarðgangaáætlun til næstu 30 ára sem tekin er upp í tillögu að samgönguáætlun frá 2024 til 2038.
Það eru Siglufjarðarskarðsgöng, tvöföldun Hvalfjarðarganga og tvöföldun Múlaganga. Koma þau á eftir Fjarðarheiðargöngum sem þegar hafa verið undirbúin.
Sem kunnugt er skríður vegurinn um Almenninga stöðugt fram. Hann er talinn hættulegur af þeim sökum og vegna hættu á skriðuföllum og snjóflóðum. Það er ástæðan fyrir því að Siglufjarðarskarðsgöng eru tekin fram yfir önnur brýn verkefni. „Við höfum verið að berjast fyrir þessu og erum ánægð með forgangsröðunina. Með því að taka veginn um göng fæst mikil stytting auk þess sem ekki þarf að aka um varasaman veg,“ segir Sigríður Ingvarsdóttir, bæjarstjóri í Fjallabyggð.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.