Tryggvi Sigurbjarnarson verkfræðingur lést á Hrafnistu í Reykjavík aðfaranótt 12. júní sl., 87 ára að aldri.
Tryggvi fæddist 9. júlí 1935. Foreldrar hans voru Sigurbjörn Ketilsson, skólastjóri í Njarðvík, og Hlíf Tryggvadóttir húsmóðir. Tryggvi lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1954 og prófi í raforkuverkfræði frá Technische Hochschule í Dresden 1961. Þá lauk hann námi í verkefnastjórnun hjá Morten Fangel 1985.
Tryggvi starfaði um árabil að orkumálum, fyrst hjá Rafveitu Siglufjarðar, síðan RARIK og Landsvirkjun og var meðal annars stöðvarstjóri Sogsvirkjana 1970-1974. Hann varð meðeigandi í verkfræðistofunni Rafteikningu 1975 og framkvæmdastjóri þar 1983-1989.
Upp úr fimmtugu söðlaði Tryggvi um og færði sig á svið verkefnastjórnunar og átti farsælan feril sem ráðgjafi og kennari. Undir sjötugt hóf hann nám í fararstjórnarfræðum og var elsti nemandi sem hefur útskrifast úr því námi. Hann starfaði sem fararstjóri um árabil eftir það. Það nám tengdist líka miklum áhuga hans á íslenskum fræðum og fornbókamenntum en þau fræði áttu hug hans frá unga aldri. Tryggvi hélt námskeið og var fararstjóri í tengslum við Íslendingasögurnar.
Tryggvi átti um ævina sæti í fjölda stjórna og nefnda. Hann sat m.a. um tíma í miðstjórn Alþýðubandalagsins, í stjórn Rafmagnsveitna ríkisins, var formaður viðræðunefndar ríkisins um sameiningu Laxárvirkjunar og Landsvirkjunar, sat í stjórn og framkvæmdastjórn SÁÁ, var formaður stjórnarnefndar sjúkrahússins Vogs og sat í stjórn Íslenska járnblendifélagsins.
Eftirlifandi eiginkona Tryggva er Siglinde Sigurlaug Sigurbjarnarson. Börn þeirra eru Rán, Ketilbjörn Rúdolf og Haraldur Flosi. Afabörn hans eru átta talsins, þar á meðal Klemens Nikulásson Hannigan, tónlistar- og sjónlistamaður, og Matthías Tryggvi Haraldsson, sem vann Grímuverðlaunin fyrir leikrit ársins sl. miðvikudagskvöld og tileinkaði þar afa sínum verðlaunin, en Klemens og Matthías eru söngvarar Hatara. Langafabörnin eru fimm.