Hitamet ársins slegið í tvígang í dag

Veðrið hefur leikið við íbúa á Austurlandi síðustu daga. Myndin …
Veðrið hefur leikið við íbúa á Austurlandi síðustu daga. Myndin er frá Seyðisfirði. Ljósmynd/Aðsend

Hitamet sumarsins var slegið fyrir skömmu þegar að hiti mældist 27,8 gráður við Hallormsstað á Austurlandi.

Veðurfræðingur segir ekki útilokað að hiti fari hátt í 30 gráður yfir helgina en svipuðu – ef ekki betra veðri, er spáð í landshlutanum á morgun.

Fyrr í dag mældist mesti hiti sumarsins á Egilsstaðaflugvelli þegar mælar sýndu 26,4 gráður þar. Metið stóð þó ekki lengi en fyrir skömmu sýndu mælar 27,8 gráður við Hallormsstað.

„Það nær ekki 28 gráðum á hverju ári,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. 

„Hallormsstaður er náttúrlega rosalega umlukinn gróðri þannig að hann mun alltaf gefa okkur ansi hátt útslag en þetta passar alveg miðað við að það er ekki nema gráðu svalara á Egilsstaðaflugvelli.“

Smá hitaskúrir

Óli Þór segir fínu veðri jafnframt spáð á Austurlandi um helgina.

„Það er alveg klárlega töluvert betra veður þar en í öðrum landshlutum. Það verður mjög svipað og alla vega ekki lakara á morgun. Ef eitthvað er þá er stærra svæði þar sem hiti verður vel yfir 20 stigum. Þetta lítur rosalega vel út fyrir Norður- og Norðausturland á morgun.“

Útlit sé þó fyrir smá hitaskúrir í dag.

„Það mun ekki bleyta í nema á örfáum stöðum. Það sama er í gildi á morgun líka, það gætu gert einhverjar síðdegisskúrir. Það verður samt lítið og saklaust. Á sunnudaginn eru líkur á meiri skúrum en alls ekki á öllu landsvæðinu og langt á milli þar sem það lendir.“

Erfitt að spá nákvæmum hita

Eigum við von á því að það verði heitara á morgun?

„Í sjálfu sér er alveg möguleiki á því. Það er aldrei neitt fast í hendi þegar við erum að eltast við tvær-þrjár gráður. Ég þori ekki að spá að það fari yfir 30 gráðurnar en það gæti slegið ansi nálægt þeim.“

Hann segir mesta hitanum á morgun spáð á Öræfum þar sem færri mælar séu staðsettir.

„Það er bara spurning hvort það hreinlega mælist. Þetta er eins og með Hallormsstað, þar er mælir en það er ekkert útilokað að það sé staður sem sé hlýrri en við erum bara ekki með mæli þar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert