Land heldur áfram að rísa í Öskju

Mynd úr rannsóknarferð jarðvísindamanna í febrúar á þessu ári.
Mynd úr rannsóknarferð jarðvísindamanna í febrúar á þessu ári. mbl.is/Árni Sæberg

Landris í Öskju hefur verið á stöðugum hraða síðan í lok september 2021 og nemur það nú um 60 cm í Ólafsgígum, rétt vestan Öskjuvatns. Þetta sýna aflögunarmælingar (GPS og InSAR).

Samkvæmt líkanreikningum eru upptök aflögunarinnar á um 2,5-2,9 km dýpi undir Öskju og staðsetning hefur verið óbreytt síðan í september 2021.

Engar vísbendingar eru þó um aukna virkni umfram landrisið.

Þetta kemur fram í tilkynningu Veðurstofu Íslands.

Grafið sýnir landris í Ólafsgígum, rétt vestan Öskjuvatns, frá því …
Grafið sýnir landris í Ólafsgígum, rétt vestan Öskjuvatns, frá því í ágúst 2021 til 15. júní 2023 sem nemur um 60 cm. Graf/Veðurstofa Íslands

Skjálftavirkni stöðug

Skjálftavirkni hefur verið frekar stöðug frá lokum ársins 2021 en á bilinu 20 til 60 skjálftar yfir 0,5 að stærð hafa mælst í Öskju í hverjum mánuði síðan þá.

Stærstu skjálftar hvers mánaðar hafa verið frá tæplega 2 að stærð upp í 3,1. Þegar landris var hraðast í september 2021 mældust nærri 150 jarðskjálftar í mánuði. 

Veðurstofan vaktar Öskju með Jarðskjálfta- og GPS mælingum ásamt gögnum úr gervitunglum. Síðan í lok maí hefur yfirborð Öskjuvatns verið íslaust eins og önnur vötn á svæðinu. Sést þetta m.a. á gervitunglamyndum.

Grafið sýnir jarðskjálftavirkni í Öskju frá janúar 2021 til miðjan …
Grafið sýnir jarðskjálftavirkni í Öskju frá janúar 2021 til miðjan júní 2023. Bláar súlur sýna fjölda jarðskjálfta (stærri en 0,5) í hverjum mánuði og punktarnir merkja stærsta jarðskjálftann í mánuðinum. Graf/Veðurstofa Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka