Laun Vinnuskólans haldast óbreytt

Unglingar í Vinnuskólanum hófu störf í síðustu viku án þess …
Unglingar í Vinnuskólanum hófu störf í síðustu viku án þess að laun höfðu verið ákveðin fyrir sumarið 2023. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Laun nemenda í Vinnuskóla Reykjavíkur voru ákveðin á borgarráðsfundi í gær og verða þau óbreytt frá því á síðasta ári þegar þau voru hækkuð um 7 prósent.

Verðbólga mælist nú um 10%, en launavísitala hefur hækkað um 6 prósent síðastliðið ár. 

Tímakaup nemenda í 8.bekk er rúmlega 700 kr., nemendur í 9.bekk fá 947 kr. á tímann og þeir í 10. bekk fá 1.148 kr. 

„Nú ríkir blússandi verðbólga"

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúar Flokk fólksins og Vinstri græna lögðu allir fram bókun á fundinum þar sem ítrekað var mikilvægi þess að laun breytist milli ára og hækki í samræmi við verðbólgu. 

„Laun í Vinnuskólanum þurfa að vera vísitölutengd enda ekki annað sanngjarnt. Nú ríkir blússandi verðbólga," segir í bókun Flokk fólksins. 

Fulltrúi Vinstri græna rifjaði upp bókun sem flokkurinnn lagði fram á síðasta ári og segir hana ennþá eiga við; „Framvegis þarf að gæta þess að tengja laun þeirra ákveðnum fasta launa svo þau fylgi öðrum hækkunum og launavísitölu og eins þarf að gera ráð fyrir þessum hækkunum við gerð fjárhagsáætlunar og úthlutunarramma."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert