Íslandsbanki hefur tilkynnt viðskiptavinum sínum að útleigu bankahólfa verði hætt og að uppsagnarákvæði núgildandi samninga hafi verið virkjað.
Uppsagnarfrestur er 3 mánuðir og eru viðskiptavinir hvattir til að koma og ganga frá lokun á hólfinu og sækja innihald þess fyrir lok uppsagnarfrestsins.
„Bankinn hefur haldið úti um 5.000 bankahólfum, en það er búið að loka um helmingi þeirra. Þetta er ekki lengur hluti af kjarnastarfsemi bankans og það eru í boði aðrar einfaldari leiðir til að geyma verðmæti.
Einnig eru skjöl að miklu leyti orðin rafræn í dag og því minni eftirspurn eftir skjalageymslu. Við höfum fundið fyrir dvínandi eftirspurn eftir þessum hólfum. Við erum búin að vera að upplýsa viðskiptavini um þessi áform og munum gera það áfram,“ segir Edda Hermannsóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptasviða Íslandsbanka.
Nánar í Morgunblaðinu í dag, laugardag.