Ísland er gestgjafi sumarfundar forsætisráðherra Norðurlandanna í ár vegna formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Verður hann haldinn í Vestmannaeyjum dagana 25. – 26. júní og verður Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sérstakur gestur fundarins.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu en þar segir einnig að eitt af þemum fundarins að þessu sinni sé svokallaður viðnámsþróttur samfélaga og var fundarstaðurinn valinn af því tilefni en í ár eru 50 ár liðin frá lokum eldgossins í Vestmannaeyjum. Norðurlöndin styrktu uppbygginguna í kjölfar gossins með margvíslegum hætti.
Forsætisráðherrum Norðurlandanna er boðið til fundarins auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands, og tekur framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar þátt í hluta fundarins.